Dæmdur fyrir þjófnað og skjalafals
Rúmlega þrítugur maður hefur verið dæmdur í hálfs árs fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness fyrri fjölda þjófnaða í Grindavík, skjalafals og bílþjófnað. Fíkniefnavandi er undirrót afbrotanna en maðurinn hefur átt við alvarlegan fíkniefnavanda að stríða. Fyrir dómi játaði maðurinn að hafa stolið farsímum í Grindavík, þar af einum úr Grindavíkurkirkju ásamt myndskyggnusýningarvél, kofforti, veiðistöng, einum kassa af bjór úr bílskúr, gamalli reiknivél, gylltri golfkylfu, líkjörsflösku og tösku í innbroti í heimahús. Brotin voru framin á tímabilinu febrúar til júlí. Maðurinn falsaði einnig þrjár ávísanir samtals að upphæð um 20 þúsund krónur og keypti fyrir þær vörur í Keflavík. Maðurinn stal bifreið við Þjóðleikhúsið í sumar og hnuplaði geislaspilara og geisladiskum. Dómurinn er skilorðsbundinn en maðurinn hefur verið í fíkniefnameðferð frá því í sumar. Manninum var gert að greiða allan sakarkostnað, þar með talin 50 þúsund króna málsvarnarlaun.
Ljósmynd: Mats Wibe Lund
Ljósmynd: Mats Wibe Lund