Dæmdur fyrir að bíta dyravörð
Tæplega þrítugur karlmaður frá Reykjanesbæ var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Maðurinn er sakfelldur fyrir að hafa sparkað í búk manns og slegið hann ítrekað í andlitið fyrir utan skemmtistaðinn Manhattan í október á síðasta ári.
Þá var hann einnig sakfelldur fyrir að bíta dyravörð skemmtistaðarins í hendina þegar hann reyndi að stöðva slagsmálin.Maðurinn játaði brot sín skýlaust. Hann hefur áður verið dæmdur fyrir umferðalagabrot og skilasvik. Brotin nú eru hegningarviðauki við þau brot. Dómur mannsins er skilorðsbundinn til tveggja ára. Manninum er svo gert að greiða fórnarlambi sínu 200 þúsund krónur í miskabætur.