Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Dæmd ein milljón króna í bætur
Miðvikudagur 8. júní 2005 kl. 21:42

Dæmd ein milljón króna í bætur

Íslenska ríkið var í dag dæmt til að greiða fyrrum starfsmanni varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli eina milljón króna í bætur vegna tapaðra launa en maðurinn var sviptur aðgangskorti að Keflavíkurflugvelli þegar grunur kom upp um að hann hefði framið brot gegn hegningarlögum.

Í kjölfar húsleitar hjá manninum síðari hluta árs 2002 og við yfirheyrslu lögreglu kom í ljós að hann hefði með ólögmætum hætti keypt vörur af aðila innan varnarsvæðisins og komið þeim af svæðinu. Maðurinn var sviptur aðgangsheimild að svæði varnarliðsins í kjölfarið og honum sagt upp störfum í lok janúar 2003. Máli hans lauk með sekt fyrir tollalagabrot en hann fékk það síðan staðfest í september 2003 að rannsókn vegna meints skjalafals og þjófnaðar hefði verið hætt.

Maðurinn sótti um störf víða en gekk, samkvæmt dómsskjölum Héraðsdóms Reykjavíkur, illa að fá vinnu við sitt hæfi vegna ásakana um brotlegt athæfi. Stefndi hann að lokum íslenska ríkinu og varnarliðinu og krafðist launa frá þeim tíma sem hann var sviptur aðgangsheimild að svæði varnarliðsins og þar til honum var sagt upp, auk skaðabóta frá ríkinu vegna þess hve dregist hefði að ljúka málinu og miskabóta fyrir að hafa þurft saklaus að þola mannorðsskerðingu og þjáningar vegna gálausra athafna lögreglu og sýslumanns.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi íslenska ríkið til að greiða manninum eina milljón króna vegna fjárhagstjóns af völdum launamissis, auk dráttarvaxta en öðrum bótakröfum var hafnað. Málskostnaður var felldur niður og gjafsóknarkostnaður mannsins, auk þóknunar lögmanns hans, greiddur úr ríkissjóði.

Þetta kemur fram á fréttavef Morgunblaðsins
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024