Covid skyndipróf á 15 mínútum við Aðaltorg
Opnuð hefur verið ný skimunarstöð fyrir Covid skyndipróf í húsnæði Aðaltorgs, áður gistiheimilisins Alex í Reykjanesbæ, skammt frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Um er að ræða svokallað Antigen próf sem skila niðurstöðu með mikilli nákvæmni á aðeins timmtán mínútum.
Prófunarstaðurinn á Aðaltorgi er einkum ætlaður ferðamönnum sem þurfa að vera með nýlegt sýni áður en þeir halda frá Íslandi til síns heima. Prófið er gert með stroku í nef og niðurstaða er send með QR-kóða í tölvupósti til viðkomandi strax að prófi loknu. QR kóða er svo framvísað áður en haldið er í flug til Bandaríkjanna og fleiri landa sem fara fram á að flugfarþegar sýni stöðu sína gagnvart Covid-19.
„Þetta skyndipróf hjálpar til við allt flæði ferðafólks frá landinu. Álag á hefðbundnu PCR prófin minnkar og þar með verður greiningar- og skimunargeta í því kerfi ekki lengur flöskuháls. Öryggismiðstöðin sér um alla framkvæmd í samstarfi við rannsóknarstofuna Sameind en notast er við skyndipróf frá Siemens sem hafa 98,73% nákvæmni. Öryggismiðstöðin hefur séð um meginþorra allra PCR skimana hér á landi þannig að reynsla þeirra af sýnatöku er gríðarleg. Bandaríkjamenn sem hafa verið að fjölmenna til Íslands þurfa að fara í svona próf fyrir heimferð þannig að það ætti ekki að hafa slæm áhrif á ferðaþjónustu og gistingu á Suðurnesjum að þessi þjónusta sé hér á svæðinu, steinsnar frá flugvellinum,“ segir Ingvar Eyfjörð hjá Aðaltorgi en von er á allt upp í tvö þúsund ferðamönnum frá Bandaríkjunum á dag í sumar í daglegu flugi bandarískra flugfélaga til Keflavíkur.
Öryggismiðstöðin er með á annað hundrað manns við störf í flugstöðinni við ýmis störf en fyrirtækið sinnir m.a. umfangsmikilli sýnatöku hjá komufarþegum á flugvellinum. Forsvarsmenn fyrirtækisins segja að skyndiprófið sé kærkomin nýjung og bæti þjónustu verulega við ferðafólk sem heimsækir Ísland. Fyrst um sinn verður opið í skimunarstöðinni við Aðaltorg frá kl. 7 til 16 alla daga en framhaldið mun ráðast af eftirspurn.
Hægt er að bóka sýnatöku á www.testcovid.is.
Ingvar í skyndiprófinu og á neðri myndinni er hann með forsvarsmönnum Öryggismiðstöðvarinnar.