Clinton til Þýskalands vegna bilunar í flugvél
Bill Clinton, fyrrum forseti Bandaríkjanna, var væntanlegur til Keflavíkur nú á þriðja tímanum í nótt á ferð sinni frá Evrópu til Ameríku. Í Keflavík ætlaði Clinton að gera um hálftíma stopp meðan tekið væri eldsneyti. Hér ætlaði hann að ræða við Davíð Oddsson forsætisráðherra og jafnframt hafði hann óskað eftir því að minjagripaverslun yrði opnuð í flugstöðinni. Ekkert varð af heimsókn forsetans fyrrverandi, þar sem bilun kom upp í flugvélinni á leið til Keflavíkur og henni snúið til næsta flugvallar í Þýskalandi.Talsverður viðbúnaður var ráðgerður vegna millilendingar vélarinnar, sem nú hefur verið afturkallaður. Á þessari stundu er ekki ljóst hvort Clinton mun hafa hér viðkomu eftir að vélin kemst í lag eða fljúga beint til Bandaríkjanna frá Þýskalandi. Ekki var gert ráð fyrir því að fjölmiðlar á Íslandi fengju að hitta Clinton.