Clint Eastwood þakkar íbúum Reykjanesbæjar heiðurinn
Clint Eastwood, leikstjóri stórmyndarinnar Flags of our Fathers vill þakka íbúum Reykjanesbæjar þann heiður sem honum er sýndur með því að afhjúpa skjöld til minningar um veru hans í Reykjanesbæ og tökur á myndinni Flags of our Fathers. Í dag var síðasti tökudagur kvikmyndarinnar hér á landi og því gat Clint ekki verið viðstaddur athöfnina utan við Sambíóin í Keflavík. Þetta kemur fram í skeyti sem Tim Moore frá Malpaso og Leifur B. Dagfinnsson frá Truenorth sendu til Ljósanæturnefndar nú síðdegis.
Skeytið hljómar svo:
Malpaso og Truenorth þakka íbúum Reykjanes gestrisni og gott samstarf á undanförnum vikum vegna vinnu okkar við kvikmyndina Flags of our Fathers. Einnig vill leikstjóri myndarinnar Clint Eastwood þakka þann heiður sem honum er sýndur í dag en þar sem upptökur standa enn yfir þá getur hann ekki sjálfur verið viðstaddur.
Við óskum ykkur öllum til hamingju með Ljósanótt
Reykjavík 3. september 2005
Tim Moore
UPM Malpaso
Leifur B. Dagfinnsson
UPM Truenorth