Clint Eastwood góð Íslandsauglýsing – Bollywood myndir teknar hér og von á fleirum
„Ég held að tökur á kvikmynd Clint Eastwood´s Flags of Our Fathers, í Sandvík á Reykjanesi, hafi virkilega opnað augu almennings fyrir þeim styrk og þeim tækifærum sem þessi iðnaður býr yfir hér á landi,“ sagði Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra við formlega opnun kvikmyndaversins Atlantic Studios sl. laugardag á Ásbrú. Hún sagði einnig frá því að hluti indverskra Bollywood kvikmynda hafi verið gerður hér.
Hér að neðan er gripið inn í ræðu ráðherra:
Markmiðið er að skapa greininni sóknarfæri. Á nýliðnu ári var lögð áhersla á kynna Ísland sem tökustað kvikmynda og hækkaða endurgreiðslu kostnaðar.
Styrkleikarnir sem við byggjum á er öflugur grunnur í sjálfri greininni hér á landi, mikil fjölbreytni landslags á litlu svæði, birtuskilyrði og vilji til að láta hlutina verða að veruleika.
Auk hefðbundnu markaðssvæðanna Bandaríkjanna og Evrópu hefur sjónum verið beint að Indlandi og Japan. Film In Iceland verkefnið sem iðnaðarráðuneytið rekur hefur verið með kynningar í báðum löndum.
Fyrirspurnir hafa líka aldrei verið fleiri. Við náðum þeim tímamótum að í fyrsta skipti voru teknir upp hlutar af indverskum kvikmyndum hér á Íslandi. Bollywood á Íslandi er sumsé að verða meira en sýning í Kópavoginum. Við höfum vonir um að indverskum verkefnum fjölgi mjög á næstu árum. Þau hafa líka þann kost að vera mikil landkynning enda reyndin verið í öðrum löndum þar sem indverskar myndir hafa verið teknar að ferðamönnum frá Indlandi fjölgar mjög.
Sem dæmi má nefna að ferðamálayfirvöld í Sviss stíla mikið inn á að kynna landið í gegnum kvikmyndaverkefni fyrir þessum milljarðamarkaði. Er aukning ferðamanna frá Indlandi til Sviss um 10 – 15% á ári. Í fyrra var líka tekin upp rússnesk stórmynd þar sem Sigurður Skúlason leikari fékk nokkuð stórt hlutverk.
Auglýsingagerð fer vaxandi og að minnsta kosti eitt mikilvægt verkefni kom í gegnum japanska auglýsingastofu.
Nokkur stór verkefni eru nú í skoðun sem við væntum þess að skili sér á þessu ári. Allt sem bætir aðstöðuna auðveldar okkur þetta starf og það á ekki síst við um opnun þessa kvikmyndavers Atlantic Studios.
Ég veit að þetta kvikmyndaver Atlantic Studios á eftir að rísa undir væntingum okkar og verða íslenskum kvikmyndaiðnaði sú lyftistöng sem við öll vonum, sagði Katrín.
Fjölmargir gestir voru við opnun kvikmyndaversins. Léttsveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar lék kvikmyndatónlist.