Capacent metur tekjur Reykjanesbæjar af atvinnusköpun mun meiri en fyrirliggjandi áætlanir
Samkvæmt skýrslu Capacent, um áhrif af nýjum atvinnuverkefnum í Reykjanesbæ, er gert ráð fyrir að útsvartekjur vegna nýrra atvinnuverkefna í Reykjanesbæ verði um 4,3 milljarðar kr. á árunum 2010-2013.
Í fram lögðum áætlunum Reykjanesbæjar fyrir sama tímabil er hins vegar gert ráð fyrir að útsvarstekjur af nýjum atvinnuverkefnum verði samtals 1,5 milljarðar kr. Sú niðurstaða þótti boða mikil jákvæð umskipti í rekstrarstöðu bæjarsjóðs. Gangi niðurstöður Capacent eftir yrðu umskiptin því augljóslega enn jákvæðari.
Samkvæmt skýrslunni eru uppsafnaðar áætlaðar tekjur Reykjanesbæjar og Reykjaneshafnar vegna yfirstandandi og fyrirhugaðrar atvinnuuppbyggingar á árunum 2010 til 2013 samtals tæplega 5 milljarðar króna.
Í skýrslu Capacent segir m.a. að uppsöfnuð aukning fasteignagjalda á tímabilinu nemi um 400 milljónum króna. Hér sé aðeins um að ræða mat á fasteignagjöldum vegna þeirra bygginga sem tengjast atvinnuuppbyggingunni en ekki vegna aukins íbúðarhúsnæðis sem af þessu leiðir. Umferð um höfnina í Helguvík muni aukast sem hækki tekjur Reykjaneshafnar af hafnargjöldum um 250 milljónir króna fyrir tímabilið í heild.
Í máli Árna Sigfússonar bæjarstjóra, við kynningu á skýrslunni í bæjarstjórn sl. þriðjudag, kom fram að þrátt fyrir niðurstöðu Capacent og þótt mörg þau verkefni sem skýrslan fjallar um séu nú á fullri ferð, telji forsvarsmenn Reykjanesbæjar að varfærnissjónarmið skuli ráða för og muni því ekki leggja fram endurskoðaða þriggja ára tekjuáætlun, segir í tilkynningu frá Reykjanesbæ.