Byrjar að sinna skjólstæðingum í dag
Á fjölmennum borgarafundi sem haldinn var í gærkvöldi á veitingastaðnum Ránni í Reykjanesbæ vegna læknadeilunnar sagði Konráð Lúðvíksson yfirlæknir Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja að hann myndi byrja að sinna sjúklingum heilsugæslunnar í dag: „Ég mun byrja að sinna þessum skjólstæðingum í dag ásamt þeim fámenna mannskap sem ég hef. Það er ekki hægt að láta almenning líða fyrir þessa stöðu. Þeir sem kjósa að vinna með okkur geta komið til starfa,“ sagði Konráð m.a. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra sagði á fundinum í gær að hann væri afar ósáttur við málflutning þess efnis að ráðuneytið hefði setið aðgerðalaust í deilunni: „Við höfum reynt að ná samkomulagi við heilsugæslulækna, en þrátt fyrir ítrekuð tilboð hefur ekket gengið. Ég kann því illa að vera stillt upp við vegg, en læknar hafa komið með kröfur sem þeir vilja ekki hvika frá. Þannig semja menn ekki,“ sagði heilbrigðisráðherra m.a. á fundinum í gær.