Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Föstudagur 27. ágúst 1999 kl. 20:55

BYRJAÐ Á NÁMSKEIÐI HJÁ JOHANNI INGA SÁLFRÆÐINGI

Heiðarskóli hóf störf í gær miðvikudag er starfsmenn skólans, 48 samtals, sátu námskeið hjá Jóhanni Inga Gunnarssyni sálfræðingi. Var það hlutverk Jóhanns að þjappa mannskapnum saman og búa þá undir að taka móti öllum nýju nemendunum. Árný Inga Pálsdóttir, skólastjóri Heiðarskóla, sagðist hlakka mikið til að takast á við fyrsta veturinn eftir fjölbreytt verkefni í kringum undirbúning skólans. En hver er nýi skólastjórinn? „Ég heiti Árný Inga Pálsdóttir og er 43 ára Sunnlendingur. Ég hef starfað sem kennari í Reykjavík og Kópavogi frá því að ég útskrifaðist frá Kennaraháskólanum 1980 að undanskildum þeim tíma sem ég var í námi við skólastjórnun í Danmarks Lærehøjskole í Kaupmannahöfn. Til Keflavíkur flutti ég haustið 1998 er ég tók við skólastjórastarfinu í Heiðarskóla.“ Er skólinn tilbúinn og fullmannaður kennurum? „Enn er sitthvað ógert en verktakinn segir að allt verði tilbúið í tíma og við treystum því að svo verði. Sundlaugin og íþróttahúsið verða tilbúin og afhent í nóvember. Það er búið að manna skólann að fullu. Í raun hefur gengið vonum framar að ráða kennara sé tekið tillit til þess að kennarastöðum fjölgar í kjölfar einsetningar og að þegar vel árar hverfur oft fjöldi menntaðra kennara í önnur störf. Ég get ekki annað en verið ánægð með að hafa fengið til starfa 35 kennara í upphafi vetrar.“ Ertu ánægð með skólabygginguna? „Þetta er fallegur skóli og í honum er góð vinnuaðstaða fyrir nemendur og kennara. Honum er í raun skipt upp í 3 einingar eftir aldursflokkum sem allir sækja sérgreinar á einn stað. Fyrsti skálinn hýsir 1-3. bekk, annar 4-6. bekk og sá þriðji 8-10. bekk en 7. bekkur á sínar heimastofur í raungreinastofunum. Þá verður vinnuaðstaða kennara sem næst þeirra kennslustofum.“ Hvernig verður tekið á móti öllum nýnemunum 1. september? „Það verður tekið á móti öllum börnunum á sama hátt og í öðrum skólum. Börnin safnast fyrir í félagsrými skólans þar sem verður lesið í bekki og kennarar taka á móti sínum hópum. Foreldrakynning verður í september og foreldrafélag stofnað.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024