Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Byrgið bíður eftir peningum
Föstudagur 17. janúar 2003 kl. 11:11

Byrgið bíður eftir peningum

Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins, segir að enn hafi ekkert gerst í málefnum Byrgisins eins og samþykkt var á ríkisstjórnarfundi fyrir jól. Á þeim fundi ritaði forsætiráðherra minnisblað sem kvað á um að á málum Byrgisins yrði tekið strax eftir áramót. Rétt fyrir jól sat Guðmundur með nefnd þeirri sem í sitja aðstoðarmenn þriggja ráðherra sem finna eiga varanlega lausn á málefnum Byrgisins. ,,Þá var okkur tjáð að til stæði að flytja okkur að Brjánsstöðum á Skeiðum og óskað eftir að við skoðuðum það húsnæði. Einnig var okkur tilkynnt á þeim fundi að fjárlög fyrir árið 2003 yrðu greidd út þann 3. janúar. Nú er mánuðurinn að verða hálfnaður og við höfum ekkert séð af þeirri greiðslu," segir Guðmundur.
Guðmundur segir að eftir því sem hann komist næst hafi verið ákveðið að gerður yrði einhvers konar þjónustusamningur við Byrgið en enn hafi ekkert gerst í því máli. Guðmundur segist hafa heyrt eftir Agli Heiðari Gíslasyni, formanni nefndarinnar, að ekkert fast væri í hendi um málefni Byrgisins. ,,Það er algjörlega í andstöðu við það sem okkur var sagt á fundinum fyrir jól. Ég veit satt að segja ekki hvernig stendur á þessu en svo virðist sem menn dragi lappirnar í þessu og ætli sér ekkert að gera."
Páll Pétursson sagði að á ríkisstjórnarfundi hafi málefni Byrgisins verið rædd. ,,Þar var endanleg ákvörðun tekin um að Byrgið færi frá Rockville. Húsnæðið þar er bæði heilsuspillandi og því fylgir eldhætta. Á fullu verður farið í að finna nýtt húsnæði og koma Brjánsstaðir til greina og Hlíðardalsskóli hefur verið nefndur auk einhverra fleiri staða."
Páll segir enn fremur að á fundinum hafi verið ákveðið að stækka hópinn sem vinnur að úrlausn á málum Byrgisins. Í hópinn bætist Þór Þórarinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu,og fer hann fyrir nefndinni. Dómsmálaráðherra óskaði einnig eftir að fá fulltrúa í hópinn. Páll segir að fjármagn verði útvegað þegar séð verði hvernig mál þróist. ,,Ákvörðun um að starfsemin haldi áfram hefur verið tekin og við munum sjá til þess að rekstargrundvöllur verði tryggður. Það er það sem skiptir máli."
Páll upplýsti að lögð hafi verið áhersla á að hópurinn sem vinnur að því að finna varanlega lausn á málunum hraði störfum sínum eins og kostur sé. Fréttablaðið/Visir.is greina frá.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024