Býrðu í glerhúsi ?
Býrðu í glerhúsi ? Fjölskyldusaga er eins konar minningabók í þremur hlutum, segir Ragnhildur L. Guðmundsdóttir, höfundur bókarinnar en hún hefur búið á Suðurnesjum alla tíð. Ragnhildur er að gefa út sína fyrstu bók.
Um hvað fjallar bókin?
Sá fyrsti fjallar um æsku- og unglingsár Rögnvaldar á Neskaupstað og vist hans síðar á barnaheimili og dvöl hjá Rögnu Aðalsteinsdóttur í Laugabóli í Djúpinu. Saga hans er átakanleg og ótrúleg þrátt fyrir að vera ekki lengra aftur í tímann en árin 1966-1973 en það var erfiðasti tíminn.
Næsti hluti fjallar um höfund, æsku- og unglingsár, einelti æskuáranna og slys á unglingsárum.
Þriðji og síðasti hlutinn fjallar svo um okkar sameiginlegu sögu, barnauppeldi og hremmingar barnanna innan skólakerfisins og að stórum hluta samfélagsins sjálfs. Foreldrafærni og hversu þýðingarmikið það er að eignast heila sjálfsmynd fyrir það hlutverk og því skipta æskuárin miklu máli þegar kemur að fullorðinsárunum. Reynsla æskuáranna hefur þannig áhrif á allar ákvarðanir daglegs lífs þegar kemur að fjölskyldulífi og barnauppeldi síðar.
Höfundur skrifar þessa bók sem eins konar uppgjör við liðinn tíma, elstu börnin hafa ekki alveg fótað sig í lífinu, dæmd á fermingaraldri og samfélagið heldur áfram að dæma. Höfundur reynir að koma með skýringar þó aldrei sé hægt alveg að réttlæta ákveðna hegðun. Þegar manni verður fótaskortur og reynir að læra af því þá er mikilvægt að finna til þess stuðning í öllu umhverfinu. Það þarf heilt þorp til þess að ala upp barn en þorpið mitt hefur ekki getað sýnt þann stuðning sem til þurfti. Sá yngsti er nú að ljúka grunnskóla svo það eru ákveðin tímamót framundan sem eru óljós hvert leiða, þá er þessum hluta a.m.k. lokið.
Hver er tilurð bókarinnar?
Að skrifa þessa bók hefur verið leiðangur fram og til baka á vegi minninganna, veitt ákveðna lausn í sálinni og auðveldað höfundi að fyrirgefa samferðamönnum sínum, enginn er eyland, við þurfum öll hvert á öðru að halda. Að skrifa og lesa er listin góð, þarna er ég hjartanlega sammála, finnst þetta gaman og mun örugglega halda áfram inn á þessa braut. Beittasta vopnið er penninn og hann mun ég nota óspart til þess að reyna að hafa áhrif til góðs í samfélaginu öllu, segir Ragnhildur L. Guðmundsdóttir í viðtali við vf.is.