Byr opnar útibú í Reykjanesbæ á morgun
Byr mun opna útibú að Hafnargötu 90 í Reykjanesbæ í fyrramálið kl. 09:00. Í útibúinu koma til með að starfa fjórir af fyrrum starfsmönnum SpKef sparisjóðs, undir stjórn Ásdísar Ýrar Jakobsdóttur en þessir starfsmenn eru með samanlagt yfir 100 ára starfsreynslu. Byr hefur unnið náið með SpKef sparisjóði, áður Sparisjóði Keflavíkur í mörg ár og veitir sambærilega þjónustu og sparisjóðurinn gerði.
Samstarf SpKef og annarra sparisjóða við Byr hefur verið mikið í gegnum tíðina. Byr hefur til að mynda veitt fyrrum viðskiptavinum SpKef, sem búa á höfuðborgarsvæðinu þjónustu þar sem SpKef var ekki með útibú á því svæði. Eftir að fyrir lá að SpKef myndi sameinast Landsbankanum, fann Byr fyrir miklum vilja meðal fyrrum viðskiptavina SpKef til að vera hjá sparisjóði og telur Byr sig geta veitt þá persónulegu þjónustu sem Byr og sparisjóðirnir hafa haft að leiðarljósi í meira en 100 ár.
Byr er myndaður úr fjórum rótgrónum sparisjóðum og starfsfólk Byrs, sem hefur margt hvert starfað þar í árafjölda, starfar enn eftir þeirri hugsjón sem sparisjóðirnir eru þekktir fyrir.
Byr hefur í gegnum tíðina lagt mikla áherslu á að vera hornsteinn í héraði og ábyrgur þátttakandi í nánasta samfélagi. Mikil áhersla er lögð á nærsamfélagið og verða Suðurnes þar engin undantekning. Þá verður einnig lögð mikil áhersla á að viðhalda þeirri menningu og persónulegu þjónustu sem var til staðar hjá SpKef og að hún skili sér til viðskiptavina, kjósi þeir að eiga í viðskiptum við Byr.