Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Bylting í aðstöðu í Leifsstöð
Föstudagur 13. apríl 2007 kl. 15:14

Bylting í aðstöðu í Leifsstöð

Fagnað verður 20 ára afmæli Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á morgun þegar nýuppgerð norðurbygging flugstöðvarinnar verður vígð formlega.
Gríðarlega bylting hefur orðið á aðstöðu innan flugstöðvarinnar þar sem gólfflötur hennar hefur stækkað um 17.000 fermetra auk þess sem unnið var að umfangsmiklum endurbótum á um 13.000 fermetrum. Samanlagt er gólfflötur flugstöðvarinnar því orðinn um 56.000 fermetrar.

 

Verktaki er Ístak hf. en fjöldi undirverktaka hefur komið að tilteknum verkþáttum.


Hér eftir eru taldir upp helstu framkvæmdaþættir:
-2. hæð flugstöðvarinnar hefur verið lögð í heild sinni undir verslun og þjónustu við brottfararfarþega. Verslunar- og þjónusturýmið er tvöfalt stærra en áður og á annan tug „nýrra“ fyrirtækja bjóða vörur og þjónustu þar og víðar í byggingunni.

-Eftirlit með farþegum fyrir brottför hefur verið flutt upp á 2. hæð. Þar eru nú sex vopnaleitarhlið í notkun en voru áður þrjú á 1. hæð.

-Tekið hefur verið í notkun afar fullkomið farangursflokkunarkerfi sem tengist nýjum færiböndum í komusal farþega. Flokkunarkerfið er alsjálf-virkt og ræður við að afgreiða samtímis farþega úr 26 flugvélum. Það annar allt að 3.600 töskum á klukkustund en flutningskerfið sem fyrir var afkastaði um 1.200 töskum á klukkustund og hafði engan veginn undan á álagstímum. Nýja flokkunarkerfið kostar um hálfan milljarð króna og þrefaldar afköst frá því sem áður var við að flokka og gegnumlýsa farangur.

-Fjölda innritunarborða hefur verið bætt við á 1. hæð. Alls eru nú í notkun 43 innritunarborð en voru 25 áður. Auk þess hafa 8 sjálfsafgreiðslustöðvar verið teknar í gagnið fyrir farþega að innrita sig í flug og 8 slíkar stöðvar til viðbótar verða teknar í gagnið áður en sumarannir hefjast í ár. Afköst við innritun eru margfalt meiri en áður.

-Farþegar fara nú um svokallaðan Laufskála úr innritunarsal upp á brottfararsvæðið á 2. hæð, bjart og glæsilegt rými.

-Landgangurinn hefur verið endurnýjaður að miklu leyti með nýjum gólfefnum, nýrri klæðningu á veggjum og nýrri lýsingu.

-Ný vörulyfta flytur varning milli hæða. Hún var stærsta vélarrýmislausa víralyftan sem sett hafði verið upp í veröldinni, með fimm tonna burðargetu. Sérfræðingar frá framleiðandanum fylgdust með uppsetningu búnaðarins og skrifuðu jafnóðum handbók um hvernig standa skyldi að slíku verki annars staðar.

-Bílastæðum hefur fjölgað stórlega við flugstöðina, bæði skammtímastæðum fyrir farþega og gesti, langtímastæðum fyrir farþega og bílastæðum fyrir starfsmenn í flugstöðinni. Um 900 bílastæði hafa bæst við frá því árið 2005 en það dugar ekki til því hafnar eru framkvæmdir við að fjölga langtímastæðum farþega um 300 viðbótar. Spurn eftir bílastæðum reynist því mun meiri en ætlað var.  Í vor verða því alls 3.500 bílastæði við flugstöðina.

-Gönguleiðir úr flugstöðinni út á bílastæðin hafa verið yfirbyggðar og hellulagðar með snjóbræðslukerfi í jörðu.

-Geymslurými hefur verið aukið verulega með því að grafa og fjarlægja jarðveg undan hluta flugstöðvarinnar og steypa þar gólf í nýjan kjallara.

Kostnaður við framkvæmdir og stækkun norðurbyggingar frá upphafi er alls um 7 milljarðar króna og skiptist í grófum dráttum sem hér segir:
-Um 2 milljarðar króna á árunum 2003-2005 við stækkun innritunar- og komusalar, innréttingar skrifstofurýmis á 3. hæð, byggingu frílagers, framkvæmdir á bílastæðum og kaup og uppsetningu á margvíslegum tæknibúnaði.

-Um 5 milljarðar króna frá hausti 2005 til vors 2007 við stækkun, breytingar, tæki og búnað, sbr. upptalningu hér á undan.

Framkvæmdirnar eru annars vegar fjármagnaðar með lánsfé og hins vegar með fjármunum úr rekstri félagsins en fjármunamyndun rekstrar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hf. hefur farið batnandi á undanförnum árum að því er kemur fram í tilkynningu frá FLE.


Þar segir einnig að engan hafi órað fyrir því á sínum tíma, að umferð um Keflavíkurflugvöll kallaði á stækkun flugstöðvarinnar svo skjótt sem raun ber vitni um og sérfræðingar hafa þurft að endurskoða umferðarspár sínar aftur og aftur. Þegar fyrsta skóflustungan var tekin að nýrri flugstöð árið 1983 fóru um 460 þúsund farþegar um þáverandi flugstöð. Árið 2006 fóru 2 milljónir farþega um flugstöðina og gert er ráð fyrir að farþegafjöldinn verði kominn í 3,2 milljónir árið 2015.

Við þessa róttæku breytingu mun brottfararsvæðið tæplega þrefaldast að stærð og þjónusta við farþega og aðra gesti flugstöðvarinnar, á sviði verslunar, veitinga, afþreyingar og almennrar afgreiðslu, eykst til muna. Að lokum þessum framkvæmdum, segir í tilkynningunni, er aðstaða og þjónusta við farþega orðin sambærileg við það sem best þekkist í þeim efnum í flugstöðvum erlendis.

VF-myndir/pket

1: Séð yfir nýuppgert brottfararsvæði, 2: Í farangursflokkun, 3: Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri FLE ráðfærir sig við staðarstjóra Ístaks um lokafrágang í flugstöðinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024