Bylting í aðstöðu Brunavarna Suðurnesja
Brunavarnir Suðurnesja tóku í gær í notkun nýtt hús sem er sérhannað til æfinga á verkþáttum slökkviliða. Húsið er staðsett hjá gömlu sorpeyðingarstöðinni ofan við Hafnarveg.
Athöfnin byrjaði með því að formaður stjórnar BS, Sigurvin Guðfinnsson, bauð gesti velkomna og rakti aðdraganda ferils þessa framtaks. Þá blessaði séra Baldur Rafn starsemi BS og þá starfsemi sem fyrirhuguð er í húsinu. Í máli sínu hafði Baldur orð á því að það væri einkennileg og sérstök tilhugsun að víga nýtt hús sem síðan ætti að kveikja í, en þetta væri eðli starfsemi hússins og slökkviliðsmönnum til mikilla framfara.
Að því loknu rakti Sigmundur Eyþórsson slökkviliðsstjóri BS forsögu málsins og þakkaði þeim sem að málinu komu. Brunamálastjóri Dr. Björn Karlsson sagði í máli sínu að þeir hjá Brunamálastofnun hefðu hug á því að kom að þessari uppbyggingu á svæðinu og vænti þess að fleiri slökkvilið á landinu, ásamt starfsemi Brunamálaskólans, myndu nýta sér húsið og svæðið til æfinga. Björn sagði að fyrirhugað væri að stofnunin styrkti slökkvilið landshlutana til uppbygginga á æfingasvæðum til að styrkja samstarf slökkviliða og efla einingar í landshlutum. Björn sagði þetta mikinn styrk og framtak Brunavarna Suðurnesja og þakkaði góðan hug og vilja sveitarfélagana. Framtíðin á svo eftir að leiða í ljós hvort þetta verður “æfingasvæðið” fyrir slökkviliðin á Suður og Suðvesturlandi eða jafnvel allt landið.
Húsið er smíðað af forskrift Brunavarna Suðurnesja og annaðist þúsundþjalasmiðurinn Freymóður Jensson eigandi vélsmiðju Hellesin s/f smíðina.
Við sama tækifæri var tekin í notkun ný hitamyndavél sem er bylting í starfi reykkafara. Vélin er fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Slökkvilið BS hefur undanfarið ár verið að kynna sér hitamyndavélar til að nota við erfiðar aðstæður t.d. í reykköfun. Slíkur myndbúnaður byggir á næmni á útfjólubláum geislum þ.e. að skynja misjafnt hitastig í efnum. Þessi tækni getur verið gagnleg reykköfurum við að finna fórnarlömb við erfiðar aðstæður sem og hvar eldur er í byggingunni t.d. í lokuðu rými s.s. inn í vegg á milli þilja. Menn eru sammála um ágæti og mikið notagildi myndvélarinnar. Myndavélin mun sannarlega auka lífsmöguleika fórnarlamba og slökkviliðsmanna við erfiðar aðstæður og auka öryggi í leit.
VF-myndir/Þorgils
Heimasíða Brunavarna Suðurnesja