Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Bylting í aðbúnaði fyrir sjúklinga og starfsfólk á nýjum deildum HSS
Frá opnun á nýjum deildum þar sem heilbrigðisráðherra klippti á borða með deildarstjórum.
Mánudagur 9. október 2023 kl. 10:25

Bylting í aðbúnaði fyrir sjúklinga og starfsfólk á nýjum deildum HSS

Ný slysa- og bráðamóttaka hefur formlega verið tekin í notkun á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Við sama tækifæri opnaði einnig ný nítján rýma sjúkradeild á stofnuninni.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, klippti á borða á tveimur stöðum á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja á þriðjudaginn í síðustu viku. Dagskráin hófst á þriðju hæð stofnunarinnar þar sem undanfarin misserI hefur verið unnið að því að innrétta sjúkradeildina. Þar eru nítján rúmgóðar stofur eða herbergi með stórum baðherbergjum. Hver stofa er útbúin með sérstakri lyftu sem auðveldar rúmliggjandi sjúklingum að komast inn á baðherbergin. Þá verða settir upp margmiðlunarskjáir við öll rúm. Þar geta sjúklingar horft á sjónvarp eða vafrað um netheima. Það voru þau Willum Þór ráðherra og Bryndís Sævarsdóttir, deildarstjóri á sjúkrahússviði, sem opnuðu sjúkradeildina formlega.

Bylting hefur orðið á slysa- og bráðamóttöku HSS með opnun móttökunnar á jarðhæð D-álmunnar. Starfssemin fer úr um 90 fermetra rými sem var orðið barn síns tíma og yfir í um 300 fermetra rými. Þar eru rúmgóðar bráða- og slysastofur auk einangrunarherbergja, góðrar biðstofu fyrir sjúklinga og góðrar starfsmannaaðstöðu. Aðkoma sjúkrabíla að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er líka á nýjum stað með auðveldu aðgengi að slysa- og bráðamóttökunni. Þá er röntgendeildin á sama gangi og allur aðbúnaður hinn besti. Willum Þór naut aðstoðar frá Ástu Kristbjörgu Bjarnadóttur deildarstjóra við að klippa á borða við opnun slysa- og bráðamóttökunnar.

Við opnun nýju slysa- og bráðamóttökunnar kom fram að komur þangað eru um 16.000 á ári hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og hafa komur aukist um 40% á tæpum áratug. Slysa- og bráðamóttakan í Keflavík er sú þriðja stærsta á landinu á eftir Landspítala í Fossvogi og slysa- og bráðamótttökunni á Selfossi.

Willum Þór upplýsti að slysa- og bráðamóttökunni hafi verið tryggðar aukalega 200 milljónir króna á ári af fjárlögum sem verður til að efla móttökuna enn frekar. Því var líka haldið fram við opnunina á þriðjudaginn að slysA- og bráðamóttakan sem verið væri að opna á nýjum stað á HSS væri sú glæsilegasta á landinu og heimafólk mætti vera stolt af aðstöðunni sem nú væri í boði.

Í spilaranum hér að neðan er umfjöllun um nýju deildirnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024