Byggja fyrir fólk með fötlun í Sandgerði
- Íbúðakjarni með fimm íbúðum og þjónusturými
Landssamtökin Þroskahjálp og Sandgerðisbær undirrituðu í vikunni samkomulag um byggingu og rekstur íbúða fyrir fólk með fötlun að Lækjamótum 61 til 65 í Sandgerði. Um er að ræða íbúðakjarna með fimm íbúðum og þjónusturými.
„Við erum afskaplega ánægð með að þetta samkomulag sé í höfn og erum með þessu að mæta brýnni þörf fyrir húsnæði meðal fatlaðra íbúa í bænum,“ sagði Sigrún Árnadóttir, bæjarstjóri í Sandgerði, við undirritun samkomulagsins.
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar, sagði að áætlað væri að byggingu íbúðanna yrði lokið á árinu 2017. „Það veltur þó á framgangi lagafrumvarpa um húsnæðismál sem eru til meðferðar á Alþingi hvenær hægt verður að hefja framkvæmdir en frumvörpin gera ráð fyrir betri kjörum fyrir leigjendur en núgildandi lög. Þannig er gert ráð fyrir að hægt sé að sækja um til 18 prósent stofnkostnaðar til ríkis og 12 prósent til sveitarfélaga,“ sagði Árni Múli.