Byggir tíu nýjar íbúðir í miðri kreppu
Bragi Guðmundsson, byggingaverktaki í Garði, byggir um þessar mundir tíu nýjar raðhúsaíbúðir þar í bæ og er með tíu manns í vinnu. Áður en lengra er haldið skal tekið fram að þetta er ekki gömul frétt frá árinu 2007 sem óvart hefur birst í tölvukerfinu. Þetta er skrifað í október 2010 í miðri kreppu.
„Maður er bara að byggja til að halda mannskapnum í vinnu og þurfa ekki að segja neinum upp. Fyrirtækið er mannskapurinn,“ svarar Bragi aðspurður þegar hann er inntur eftir því hvers vegna hann sé að byggja í þessu árferði. Eins og allir vita er ástandið í byggingariðnaði afar slæmt. Bragi segist aldrei hafa séð verra ástand í þau 30 ár sem hann hefur starfað sem byggingaverktaki. Þegar hann er inntur eftir því hvort hann hafi selt einhverjar íbúðanna tíu er svarið stutt og laggott: „Ég hef ekki einu sinni reynt það“.
Við greinum nánar frá þessu í Víkurfréttum sem koma út á morgun.
VFmynd/elg – Mannskapurinn hjá Braga Guðmundssyni á fullu nú í vikunni við mótauppslátt í 10 íbúða raðhúsi sem er í byggingu.