Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Föstudagur 9. júní 2000 kl. 14:05

Byggingaleyfisgjöld fjórum sinnum lægri í Garðinum en Reykjanesbæ

Lokið hefur verið við gerð deiliskipulags á þremur byggingasvæðum í Gerðahreppi fyrir á níunda tug húsa. Forráðamenn Gerðahrepps segja að markmiðið sé að þétta byggðina og vekja athygli á lágum byggingaleyfisgjöldum sem eru allt að fjórum sinnum lægri en t.d. í Reykjanesbæ. Nú þegar hafa Búmenn sem er félag fólks 50 ára og eldri ákveðið að byggja tíu íbúðir í Útgarði, norðan og vestan knattspyrnusvæðis Víðismanna. Á því byggingarsvæði er gert ráð fyrir 48 íbúðum í blandaðri byggð, einbýlis-, rað- og parhúsa. Búmenn hefja framkvæmdir mjög fljótlega og ætla að klára fyrstu fimm íbúðirnar á þessu ári og næstu fimm á næsta ári. „Við munum ganga frá lóðunum á næstu dögum þannig að Búmenn geti hafist handa“, sagði Ingimundur Guðnason, formaður bygginganefndar. Búmenn hafa gert samning við Braga Guðmundsson, byggingaverktaka í Garði um smíði húsa þeirra sem munu verða 70, 90 og 105 fermetra stór auk bílskúrs. Sigurður Ingvarsson, oddviti Gerðarhrepps segir að á aðalfundi Búmanna á dögunum hafi komið fram að mikil eftirspurn væri eftir íbúðum á Suðurnesjum frá félögum Búmanna sem eru um allt land. Við Ósbraut, sem er ofan Klapparbrautar, er gert ráð fyrir fjórtán einbýlishúsalóðum og er skipulagið beint framhald byggðar neðan Ósbrautar. Þar eru þegar hafnar framkvæmdir við eitt einbýlishús. Við Silfurtún eða sunnan og vestan bensínstöðvarinar, er gert ráð fyrir 16 íbúðum, einbýlis- og parhúsum. Þegar hafa tveir verktakar fengið úthlutað lóðum á þessu svæði. Ofan Garðbrautar og neðan Melbrautar, milli Laufáss og Brautarholts er gert ráð fyri 3 lóðum. Sigurður Jónsson, sveitarstjóri, sagði að hugmyndin væri að bjóða upp á lóðir á mismunandi stöðum í sveitarfélaginu. Með þessu skipulagi væri hægt að velja á milli þriggja svæða í sveitarfélaginu. Sigurður benti á að mjög hagstætt væri að byggja í Garðinum vegna lágra byggingaleyfisgjalda. Tók han dæmi um 190 fermetra einbýlishús á 900 m2 lóð. Heildarkostnaður vegna byggingar- og gatnagerðargjalda væri aðeins um 320 þús. kr. sem væri með því allra lægsta á Suðurnesjum. Til að mynda væri kostnaður við þessa stærð húss í Reykjanesbæ um fjórum sinnum hærri þar sem gatnagerðargjöld eru um 1600 kr. á fermetra. Á höfuðborgarsvæðinu yrði leyfiskostnaður um 4 millj. kr. við samskonar hús. Meirihluti hreppsnefndar hefur markað þá stefnu innan hreppsnefndar að vinna að því að ná fram lækkun á lóðaleigu frá því sem nú er. Land er að mestu í einkaeign í hreppnum og telur meirihluti hreppsnefndar að þessu verði að breyta og vinnur nú að því að kaupa land. Verður lóðaleigusamningum þá breytt, lóðaleiga lækkun og miðuð við 2% af fasteignamati, en algengt er í dag að lóðaleiga sé miðuð við 5% af lægsta taxta verkamanna. Tæplega tólfhundruð íbúar búa í Gerðahreppi í dag en fjölgun á síðasta áratug nemur tæpum 11% sem er með því mesta á landsvísu. Siguður Jónsson sagði þessa þróun halda áfram og mikil eftirspurn væri nú eftir húsnæði í Garðinum. Á tímabilinu janúar til mars í ár, hafa nítján manns flutt í Garðinn umfram brottflutta.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024