Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Þriðjudagur 27. nóvember 2001 kl. 00:59

Byggingaleyfið í lagi

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kvað upp úrskúrð sinn þann 20. nóvember sl. vegna kæru 10 húseigenda við Austurgötu í Keflavík á ákvörðun byggingarfulltrúa í Reykjanesbæ frá 21. júní 2000 um að veita Húsanesi ehf. byggingarleyfi fyrir nýbyggingu að Hafnargötu 51 - 55 í Keflavík.

Úrskurðurinn er birtur í heild „meira“:Samkvæmt úrskurði nefndarinnar er kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfis hafnað og öðrum kröfum kærenda í málinu vísað frá.
Nefndin telur að hin kærða ákvörðun samræmist ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um byggingarleyfi og sé ekki haldin neinum annmörkum sem réttlæti ógildingu.

Kvörtunum íbúa um að ekki hafi veri gengið frá mannvirkjum, svo sem girðingu milli lóða, í samræmi við samþykktar teikningar, byggingarskilmála eða aðrar settar reglur er vísað til byggingaryfirvalda í Reykjanesbæ.

Úrskurður nefndarinnar í heils sinni:

Ár 2001, þriðjudaginn 20. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála
saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru;
varaformaður nefndarinnar, Gunnar Jóhann Birgisson hrl., Þorsteinn Þorsteinsson
byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir lögfræðingur, aðalmenn í
nefndinni.
Fyrir var tekið mál nr. 35/2000; kæra 10 húseigenda við Austurgötu í Keflavík,
Reykjanesbæ á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 21. júní 2000 um
að veita Húsanesi ehf. byggingarleyfi fyrir nýbyggingu að Hafnargötu 51-55 í
Keflavík.
Á málið er nú lagður svofelldur
Úrskurður.
Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem barst
nefndinni hinn 26. júní 2000, kærir Ásgeir Jónsson hdl., fyrir hönd húseigenda að
Austurgötu 17, 20, 22, 24 og 26 í Keflavík, Reykjanesbæ, þá ákvörðun
byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 21. júní 2000, að veita Húsanesi ehf.
byggingarleyfi fyrir nýbyggingu að Hafnargötu 51-55 í Keflavík. Af hálfu kærenda er
þess krafist að skipulags- og byggingaryfirvöldum í Reykjanesbæ verði gert að vinna
deiliskipulag fyrir téða lóð/lóðir og kynna það með lögformlegum hætti skv. lögum nr.
73/1997 með síðari breytingum. Þá er þess krafist að hið kærða byggingarleyfi verði fellt
úr gildi.
Til vara er þess krafist að byggingarframkvæmdum á téðri lóð verði hagað í samræmi við
upphaflegar teikningar um tilhögun byggingar og bílastæða á lóðinni, sbr. teikningu,
dags. 15. febrúar 2000, og samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Reykjanesbæjar
þann 23. mars 2000.
Af hálfu kærenda var þess jafnframt krafist að framkvæmdir við hina umdeildu byggingu
yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með úrskurði
uppkveðnum hinn 11. júlí 2000 hafnaði úrskurðarnefndin kröfu kærenda um stöðvun
framkvæmda en málið er nú tekið til efnisúrlausnar.
Vegna fjarveru formanns tók Gunnar Jóhann Birgisson hrl., varaformaður nefndarinnar,
sæti formanns við meðferð málsins.
Málavextir: Byggingarleyfi fyrir hinum umdeildu framkvæmdum við nýbyggingu að
Hafnargötu 51-53 í Keflavík var fyrst veitt hinn 27. apríl 2000. Kærendur vísuðu þeirri
leyfisveitingu til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 3. maí 2000, og gerðu þær kröfur
að byggingaryfirvöldum yrði gert skylt að vinna deiliskipulag að byggingarsvæðinu og
kynna það með lögformlegum hætti, en til vara að grenndarkynning yrði látin fara fram
áður en framkvæmdum yrði fram haldið. Þá kröfðust þeir stöðvunar framkvæmda meðan
málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
Með bréfi, dags. 10. maí 2000, til byggingarleyfishafa afturkallaði byggingarfulltrúinn í
Reykjanesbæ áður útgefið byggingarleyfi frá 27. apríl 2000 og var framkvæmdum við
bygginguna hætt í framhaldi af afturköllun leyfisins. Í ljósi þessara breyttu aðstæðna
taldi úrskurðarnefndin að kærendur ættu ekki lengur lögvarða hagsmuni því tengda að fá
skorið úr um gildi byggingarleyfisins og vísaði máli þeirra frá, með úrskurði hinn 17. maí
2000.
Eftir að umrætt byggingarleyfi hafði verið fellt úr gildi var fyrirhuguð nýbygging kynnt
nágrönnum með vísun til 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um
grenndarkynningu. Stóð kynningin yfir frá 12. maí til 13. júní 2000 og komu fram
allmargar athugasemdir, flestar frá kærendum. Að lokinni grenndarkynningu og
umfjöllun um framkomnar athugasemdir veitti byggingarfulltrúi, hinn 21. júní 2000, leyfi
það sem kært er í máli þessu, en hann afgreiðir byggingarleyfi með heimild í Samþykkt
um afgreiðslu byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar, nr. 250 frá 5. apríl 2000. Skutu
kærendur málinu til úrskurðarnefndarinnar hinn 26. júní 2000 eins og að framan greinir.
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er aðallega á því byggt að vinna hefði þurft
deiliskipulag fyrir byggingarreitinn að Hafnargötu 51-55 áður en til framkvæmda hefði
komið á lóðunum. Með því móti hefði verið tryggt að öllum hagsmunaaðilum hefði gefst
kostur á að gera athugasemdir við byggingartillögurnar. Þá hefði einnig verið tryggt að
allir kostir á staðsetningu húss og bílastæða hefðu verið skoðaðir gaumgæfilega. Vísa
kærendur þessu til stuðnings til 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um
deiliskipulag svo og til 3. mgr. 2. gr. og 4. mgr. 9. gr. sömu laga. Um sé að ræða meiri
háttar framkvæmd sem hafi mikil áhrif á næsta umhverfi og sérstaklega á aðlæga
íbúðarbyggð.
Kærendur benda á að mál þetta snúist að verulegu leyti um þá ákvörðun að snúa við
upphaflegri tilhögun að staðsetningu húss og bílastæða á lóðinni að Hafnargötu 51-55.
Upphaflega tilhögunin hafi verið samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar þann
23. mars sl. Hugmynd um umsnúning á byggingarreitnum virðist hafa fyrst orðið til á
fundi bæjarráðs þann 19. apríl 2000, þegar ráðið hafi falið byggingarfulltrúa að kanna hjá
byggingaraðila hvort færa mætti bygginguna og bílastæði til á lóðinni. Svo rösklega hafi
verið gengið til verksins að þann 27. apríl hafi byggingarfulltrúinn gefið út byggingarleyfi
til Húsaness ehf. án þess að teikningar eða nýjar hugmyndir hefðu verið kynntar í
bæjarráði eða í skipulags- og byggingarnefnd. Byggingarleyfið hafi síðan verið
afturkallað þann 10. maí. 2000 og tveimur dögum síðar hafi verið farið út í
grenndarkynningu með síðari tillöguna. Þessi síðari tillaga um staðsetningu húss og bílastæða á lóðinni virðist ekki hafa verið samþykkt eftirá af skipulags- og
byggingarnefnd né bæjarráði eða bæjarstjórn. Bréfi lögmanns kærenda til
byggingarfulltrúa, dags. 9. maí 2000, hafi eigi verið svarað, en þar hafi m.a. verið gerð
fyrirspurn um það af hverju byggingarleyfið hafi ekki verið lagt fram til kynningar í
skipulags- og byggingarnefnd. Reyndar hafi í bréfinu verið dregið í efa að
byggingarfulltrúinn hefði vald til að gefa út byggingarleyfi á grundvelli samþykktar nr.
250/2000 um afgreiðslu byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar skv. skipulags- og
byggingarlögum nr. 73/1997. Með bréfi, dags. 26. apríl 2000, hafi þess m.a. verið krafist
að byggingin yrði staðsett skv. upphaflegri grunnteikningu. Bæjarráð hafi vísað erindinu
til umsagnar skipulags- og byggingarnefndar á fundi sínum 3. maí 2000. Ekkert hafi hins
vegar frést af því máli né hafa nokkur svör borist. Seinni tillaga um staðsetningu húss
hafi verið kynnt í grenndarkynningu en ekkert getið um fyrri tilhögun. Ekki liggi fyrir
hvenær síðari tilhögun á byggingarreitnum, sem var kynnt hafi verið í
grenndarkynningunni, hafi verið formlega samþykkt af skipulagsyfirvöldum í
Reykjanesbæ en ákvörðun um að kynna síðari tillöguna í grenndarkynningu jafngildi
tæpast samþykkt að hálfu skipulagsnefndar á henni.
Skipulags- og byggingarnefnd hafi ákveðið að halda sig við síðari tillögu um staðsetningu
húss og bílastæða á Hafnargötu 51-55 eftir að grenndarkynning hafði farið fram og hafi
jafnframt ákveðið að athugasemdir kærenda væru þess eðlis að ekki þyrfti að taka tillit til
þeirra. Rök nefndarinnar hafi aðallega verið þau að síðari tillagan að staðsetningu húss
og bílastæða hefði afgerandi kosti umfram fyrri tillögu út frá
umferðaröryggissjónarmiðum og að betri götumynd fengist með henni þar sem þá
skiptust á hús og bílastæði í stað þess að tekið væri stórt samliggjandi svæði undir
bílastæði.
Með vísun til fyrirliggjandi álits Dr. Haraldar Sigþórssonar umferðarverkfræðings, telja
kærendur þessa staðhæfingu skipulags- og byggingarnefndar marklausa enda verði ekki
annað ráðið af álitinu en að seinni tillagan sé í raun heldur verri út frá
umferðarsjónarmiðum. Þá sé staðhæfing nefndarinnar um götumynd ekki á rökum reist
og séu skoðanir skiptar um það atriði. Einnig sé mótmælt þeirri staðhæfingu skipulags-
og byggingarnefndar að síðari tillaga hafi í för með sér minni skuggamyndun en sú fyrri.
Auk þess falli fyrri tillagan betur að óskum kærenda í því efni enda séu þeir sem yrðu
fyrir birtuskerðingu eftir fyrri tillögunni reiðubúnir að sæta henni og losna þess í stað við
aukna umferð og bílastæði í námunda við eignir sínar.
Kærendur telja samkvæmt framansögðu að ákvörðun skipulagsyfirvalda um umsnúning á
byggingarreit húss á lóðinni að Hafnargötu 51-55 hafi verið tekin á afar hæpnum
grundvelli og að rök fyrir viðsnúningnum standast ekki nánari skoðun. Kærendur eigi
lögvarinn rétt skv. lögum nr. 73/1997, sbr. t.d. 4. mgr. 9. gr. og 1. gr. nefndra laga, á að
mark sé tekið á tillögum þeirra og sjónarmiðum. Ákvæði þessi séu ekki til skrauts í
lögunum og hljóta að skapa kærendum rétt. Engin veigamikil rök hafa komið fram í
málinu sem réttlæta að ekki sé farið að óskum og kröfum kærenda. Því hefði átt að fallast
á kröfu þeirra um að byggt yrði á lóðinni að Hafnargötu 51-55 skv. upprunalegum
tillögum.
Loks telja kærendur að grenndarkynningu þeirri sem fram fór hafi verið áfátt þar sem
ekki hafi verið sýnt fram á að hún hafi náð til allra þeirra sem hagsmuna hafi átt að gæta.
Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. nóvember 2001, hefur lögmaður kærenda,
auk framanritaðs, komið því á framfæri að kærendur telji að skuggamyndun frá
nýbyggingu sé meiri en vænst hafi verið, hávaði sé frá ruslagámi og vörumóttöku, oft frá
kl. 06:00 að morgni, óþægindi stafi frá óvörðu útiljósi á bakhlið nýbyggingarinnar og að
ekki hafi verið reist girðing milli húsa kærenda og nýbyggingar eins og til hafi staðið.
Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu Reykjanesbæjar er kröfum kærenda mótmælt og
því haldi fram að hið umdeilda byggingarleyfi sé í fullu samræmi við gildandi
aðalskipulag og að fullnægjandi grenndarkynning hafi farið fram. Vandað hafi verið til
þeirrar kynningar enda hafi í raun engar athugasemdir verið gerðar við framkvæmd
hennar. Allar aðliggjandi lóðir í hverfinu séu að fullu byggðar að undanskilinni lóðinni
nr. 52 handan Hafnargötunnar. Deiliskipulag hafi því verið með öllu óþarft, sbr. 2. mgr.
23. gr. skipulags- og byggingarlaga. Ekki verði séð að kærendur hafi rökstutt það með
nokkrum hætti hvers vegna umrætt undanþáguákvæði eigi ekki við í máli þessu.
Grundvallaratriði í málinu sé að kærendur hafi um langt árabil mátt búast við byggingu af
þessu tagi og raunar talsvert umfangsmeiri byggingu, sé miðað við nærliggjandi hús.
Þess vegna verði kærendur, líkt og aðrir íbúar í nágrenninu, að sætta sig við það mat
bæjaryfirvalda að byggingin samrýmist fyllilega markmiðum aðalskipulags og
staðsetning hennar sé sú heppilegasta sem völ sé á. Á lóðunum sem um ræði hafi verið
þrjú gömul hús, tvö lítil íbúðarhús á nr. 51 og nr. 53, og reiðhjólaverkstæði á einni hæð á
nr. 55, lágreist og hrörlegt. Nr. 51 hafi verið flutt á brott árið 1995 en húsið nr. 53 rifið
árið 1991, enda þá talið hættulegt börnum og öðrum vegfarendum. Húsið nr. 55 hafi
síðan verið rifið af byggingarleyfishafanum, Húsanesi ehf, í tilefni af fyrirhugaðri
byggingu. Næstu nágrannar við svæðið séu kærendur við Austurgötu nr. 20-26. Einn
kærenda búi þó fjær við Austurgötu. Aðrir nágrannar hafi flestir hverjir engar
athugasemdir gert við það fyrirkomulag byggingarmála á umræddum lóðum sem um sé
deilt í málinu. Umsnúningur hússins komi við sögu. Hann sé tvímælalaust til bóta, t.d.
hafi með honum fundist hagkvæm lausn á fyrirkomulagi bifreiðastæða. Tíu
viðbótarbílastæði fást með þessu við Hafnargötu, aðalgötu bæjarins, auk aðalstæðisins
norðanvert við bygginguna. Staðsetning bílastæðanna að sunnanverðu hefði án tvímæla
verið lakari kostur, en þar hefðu þau skarast við stór bifreiðastæði á lóðinni nr. 57 með
tvennum inn- og útkeyrslum. Með umsnúningnum hafi og dregið úr skuggamyndun á
lóðunum við Austurgötu.
Andmæli byggingarleyfishafa: Talsmaður byggingarleyfishafa, Húsaness ehf., telur að
flest af þeim sjónarmiðum, sem fram komi í greinargerð lögmanns kærenda, tengist
formreglum og samskiptum kærenda og bæjaryfirvalda og séu í raun Húsanesi
óviðkomandi. Rétt sé þó að fram komi að félagið hafi lagt fyrir byggingarnefnd þrjár
tillögur að staðsetningu húss á lóðinni. Hafi fyrsta tillagan gert ráð fyrir að innkeyrsla á
lóð og bílastæði væru sameiginleg með Hafnargötu 57 en þeirri tillögu hafi eigandi
þeirrar eignar hafnað. Næsta tillaga hafi lotið að því að innkeyrsla inn á bílastæði væri
frá Hafnargötu. Bæjaryfirvöld hafi hins vegar bent á þann kost að innkeyrsla inn á lóðina
yrði frá Skólavegi og hafi það fyrirkomulag orðið fyrir valinu, enda henti það best með
tilliti til bílastæða og aðkomu. Hafi það því verið hagsmunamál fyrir byggingarleyfishafa
að þetta fyrirkomulag væri valið þegar staðsetning húss á lóð hans yrði ákveðin.
Aðilar máls þessa hafa fært frekari rök fyrir kærunum annars vegar og hinni kærðu
ákvörðun hins vegar. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þessum röksemdum aðila í úrskurði þessum, en úrskurðarnefndin hefur
haft allar röksemdir þeirra til hliðsjónar við úrlausn málsins.
Umsögn Skipulagsstofnunar: Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar Skipulagsstofnunar
um álitaefni máls þessa. Í umsögn stofnunarinnar, dags. 31. maí 2001, segir m.a:
„Hafnargata 51-55 er á miðbæjarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 1995-
2015. Þar er gert ráð fyrir blandaðri byggð verslunar, þjónustustofnana og íbúða. Ekki
er í aðalskipulaginu gerð grein fyrir leyfilegu nýtingarhlutfalli lóða eða reita á
miðbæjarsvæði. Í gögnum málsins kemur fram að á lóðunum hafi áður staðið 2
íbúðarhús og reiðhjólaverkstæði. Grunnflötur húss skv. hinu kærða byggingarleyfi mun
vera 558,3 m 2 og stærð samtals 1116,6 m 2 . Nýtingarhlutfall lóðar er 0,69. Ekki liggur
fyrir hvert er nýtingarhlutfall nágrannalóða á miðbæjarsvæði.
Ekki liggur annað fyrir í málinu en að grenndarkynning hafi farið fram með fullnægjandi
hætti áður en hið kærða byggingarleyfi var veitt og ekki er í kæru fundið að framkvæmd
grenndarkynningarinnar. Skipulagsstofnun telur að þrátt fyrir að í hinu kærða tilviki
hefði verið eðlilegt að vinna deiliskipulag viðkomandi reits, eins og t.d. var gert á árinu
2000 fyrir verslunar- og þjónustusvæði austan Hafnargötu 89, verslunar- og þjónustulóð
við ofanverða Aðalgötu og af A hluta gamla bæjarins í Keflavík, hafi ekki hvílt
ófrávíkjanleg lagaskylda á sveitarstjórn að gera slíkt. Bygging samkvæmt hinu kærða
byggingarleyfi samræmist aðalskipulagi og ekki liggja fyrir gögn um að hún víki frá
yfirbragði aðliggjandi bygginga á miðbæjarsvæði. Sveitarstjórn Reykjanesbæjar hafi því
verið heimilt að veita leyfið að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt 3. mgr. 23.
gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.br., sbr. 7. mgr. 43. gr. sömu laga.“
Vettvangsganga: Boðað var til vettvangsgöngu í máli þessu hinn 2. maí 2001. Vegna
forfalla gat formaður úrskurðarnefndarinnar ekki verið viðstaddur en aðrir nefndarmenn
voru mættir ásamt framkvæmdastjóra nefndarinnar. Viðstaddir voru auk þeirra eigandi
Austurgötu 26 f.h. kærenda og byggingarfulltrúinn í Reykjanesbæ. Þeir veittu
nefndarmönnum upplýsingar er málið varða og gerðu grein fyrir helstu sjónarmiðum
sínum í málinu. Gengið var um byggingarsvæðið en jafnframt skoðuðu nefndarmenn
aðstæður frá lóð hússins nr. 26 við Austurgötu og stoðvegg á mörkum þeirrar lóðar og
lóðar nýbyggingarinnar.
Niðurstaða: Valdsvið úrskurðarnefndarinnar sem æðra stjórnvalds er við það bundið að
meta gildi lokaákvörðunar lægra setts stjórnvalds sem skotið hefur verið til nefndarinnar
með lögmæltum hætti. Það er því ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að leggja fyrir
byggingar- eða skipulagsyfirvöld sveitarfélaga að láta vinna skipulagsáætlanir eða að
mæla fyrirfram fyrir um það að mannvirkjagerð skuli hagað með tilteknum hætti. Af
þessum sökum ber að vísa frá nefndinni aðalkröfu kærenda um að lagt verði fyrir
byggingaryfirvöld í Reykjanesbæ að vinna deiliskipulag fyrir téðar lóðir svo og varakröfu
þeirra um að byggingarframkvæmdum verði hagað í samræmi við upphaflegar teikningar.
Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda hefur áður verið hafnað með úrskurði hinn 11.
júlí 2000 og verður því í máli þessu einungis fjallað um þá kröfu kærenda að
byggingarleyfi það sem byggingarfulltrúinn í Reykjanesbæ veitti Húsanesi ehf. hinn 21.
júní 2000 samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 20. júní 2001 verði
fellt úr gildi.
Ekki verður á það fallist með kærendum að nauðsynlegt hafi verið að vinna deiliskipulag
fyrir byggingarreitinn að Hafnargötu 51-55 áður en þar yrðu leyfðar byggingarframkvæmdir. Samkvæmt 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr.
73/1997 með síðari breytingum er sveitarstjórn heimilt, að undangenginni
grenndarkynningu skv. 7. mgr. 43. gr. sömu laga, að leyfa framkvæmdir í þegar byggðum
hverfum þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir. Byggingarleyfi sem veitt er með heimild
í 3. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 verður þó að fullnægja kröfum 43. gr. laga nr. 73/1997
að öðru leyti og verður því m.a. að samræmast skilmálum gildandi aðalskipulags fyrir
viðkomandi svæði. Þá hefur undanþáguheimild 3. mgr. 23. gr. laga nr. 73/1997 verið
skýrð svo að byggingarleyfi veitt á grundvelli hennar megi ekki leiða til verulegra
breytinga á byggðamynstri viðkomandi svæðis. Verður að telja að hin umdeilda
nýbygging fullnægi þessum skilyrðum enda verður ekki séð að hún víki að marki frá
yfirbragði aðliggjandi bygginga á miðbæjarsvæði. Fær þessi niðurstaða frekari stoð í
umsögn Skipulagsstofnunar í málinu.
Samkvæmt framansögðu var byggingaryfirvöldum í Reykjanesbæ heimilt að veita hið
umdeilda byggingarleyfi að undangenginni grenndarkynningu svo sem gert var.
Ákvörðun um grenndarkynninguna var tekin á fundi skipulags- og byggingarnefndar
Reykjanesbæjar hinn 10. maí 2000 en þá lá fyrir nefndinni umsókn um leyfi fyrir þeirri
byggingu sem kynnt var. Samræmdist þessi málsmeðferð ákvæði 7. mgr. 43. gr. laga nr.
73/1997, en samkvæmt ákvæðinu ber byggingarnefnd þá fyrst að taka afstöðu til
umsóknar um byggingarleyfi þegar grenndarkynningu er lokið þegar um er að ræða
afgreiðslu byggingarleyfisumsóknar með stoð í undanþáguákvæði 3. mgr. 23. gr.
lagnanna. Samkvæmt sama ákvæði er það á valdsviði byggingarnefndar að meta hverjir
teljist eiga hagsmuna að gæta og hefur ekki verið sýnt fram á það að ágallar hafi verið á
grenndarkynningunni að því leyti enda þótt kærendum væri ekki gerð grein fyrir umfangi
hennar í upphafi.
Ekki verður fallist á að skipulags- og byggingarnefnd hafi borið að verða við
athugasemdum kærenda er fram komu við grenndarkynninguna. Hefur ekki heldur verið
sýnt fram á það að ákvarðanir nefndarinnar hafi verið reistar á ómálefnalegum grundvelli
eða haldnar öðrum þeim annmörkum er til ógildingar gætu leitt. Verður að skilja ákvæði
7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 á þann veg að skipulags- og byggingarnefndum sé
einungis skylt að taka framkomnar athugasemdir við grenndarkynningu til athugunar og
taka til þeirra rökstudda afstöðu en ekki sé skylt að verða við kröfum eða óskum
nágranna. Hins vegar geta ákvarðanir skipulags- og byggingaryfirvalda á stundum leitt til
röskunar á lögvörðum hagsmunum nágranna og má fallast á að í máli þessu hafi eigendur
þeirra eigna við Austurgötu, sem liggja að lóð og bílastæðum hinnar umdeildu
nýbyggingar, þurft að sæta nokkurri skerðingu á grenndarhagsmunum, einkum eigendur
eignarinnar nr. 26. við Austurgötu. Hafa þeir orðið fyrir umtalsverðri skerðingu á birtu á
lóð auk þess sem aukið álag er á stoðvegg sem fyrir var á mörkum þeirrar lóðar og lóðar
nýbyggingar, sem tjón gæti hlotist af. Þykir þessi röskun á hagsmunum nágranna þó ekki
svo veruleg að leitt geti til ógildingar hins umdeilda byggingarleyfishafa.
Loks verður ekki fallist á að byggingarfulltrúa hafi brostið heimild til útgáfu
byggingarleyfis eins og látið er að liggja af hálfu kærenda. Eiga heimildir hans sér stoð í
staðfestri samþykkt frá 5. apríl 2000, sbr. 4. mgr. 40. gr. laga nr. 73/1997 með síðari
breytingum.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun
samræmist ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um byggingarleyfi og sé ekki haldin neinum þeim annmörkum sem til ógildingar leiði. Er kröfu kærenda um
ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.
Að því marki sem umkvartanir kærenda lúta að því að ekki hafi verið gengið frá
mannvirkjum, svo sem girðingu milli lóða, í samræmi við samþykkta uppdrætti,
byggingarskilmála eða aðrar settar reglur, ber þeim að beina þeim erindum sínum til
byggingaryfirvalda í Reykjanesbæ, enda liggja ekki fyrir ákvarðanir um þessi
kvörtunarefni, sem sætt geta kæru til úrskurðarnefndarinnar.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda og anna hjá
úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfis er byggingarfulltrúinn í
Reykjanesbæ veitti Húsanesi ehf. hinn 21. júní 2000 fyrir nýbyggingu á lóðunum nr. 51-
55 við Hafnargötu í Keflavík. Öðrum kröfum kærenda í máli þessu er vísað frá
úrskurðarnefndinni.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024