Byggingaleyfi samþykkt fyrir metanólverksmiðju
CRI ehf óskaði eftir byggingarleyfi fyrir Metanól verksmiðju að Orkubraut 2 í Grindavík, á grunni teikninga frá Arkís dags.10.11.2010. Bæjarráði Grindavíkur hafa ennfremur borist afstöðumyndir sem sýna mannvirkin í umhverfinu. CRI ehf hefur kynnt áformin fyrir forsvarsmönnum aðliggjandi fyrirtækja og setja þau sig ekki upp á móti áformunum.
Bæjarráð samþykkir samhljóða erindið, en tekur undir áherslur skipulags- og bygginganefndar þess efnis að útlit bygginga falli sem best að umhverfinu og að sérstök snyrtimennska verði viðhöfð á framkvæmdartíma sem og um ókomna framtíð.
Bæjarráð samþykkir að byggingareftirlit byggingafulltrúa fari fram á grunni gr. 61.4 í byggingareglugerð þar sem segir:
„Þegar um er að ræða stórhýsi eða meiri háttar mannvirki getur byggingarfulltrúi krafist þess að byggjandi ráði sér, á eigin kostnað, sérstakan eftirlitsmann sem byggingarfulltrúi samþykkir og skal hann gera byggjanda og byggingarfulltrúa grein fyrir störfum sínum. Einnig getur byggingarfulltrúi krafist þess að óháðum löggiltum hönnuðum með tilhlýðilega þekkingu sé falið eftirlit með byggingarframkvæmdum, á kostnað byggjanda, þegar um óvenjulega eða nýja byggingartækni er að ræða eða ef um sérstaklega flókin eða vandasöm verk er að ræða að mati byggingarfulltrúa“, segir á vef Grindavíkurbæjar.