Byggðasósíalismi, ofsköttun og tvísköttun
– Eru þeir fátæku að borga fyrir hina ríku?
Á Suðurnesjum er rekinn einhver öflugasti byggðasósíalismi á landinu og jafnvel þótt víðar væri leitað, en vandséð er að sá háttur sé öllum íbúum í hag.
Hvergi birtist þetta ljósar en í hirðu og förgun húsasorps. Lítum á nokkur dæmi um sorphirðu- og sorpeyðingargjöld á íbúð gjaldárið 2014:
Sveitarfélag | Sorpgjöld 2014 | Hlutfall af Reykjanesbæ |
Reykjanesbær |
37.435 |
100% |
Garður |
37.435 |
100% |
Sandgerði |
37.435 |
100% |
Grindavík |
37.435 |
100% |
Vogar |
38.070 |
102% |
Akranes |
29.820 |
80% |
Hafnarfjörður |
24.158 |
65% |
Mosfellsbær |
23.280 |
62% |
Kópavogur |
22.000 |
59% |
Garðabær |
20.700 |
55% |
Reykjavík |
20.400 |
54% |
Seltjarnarnes |
19.900 |
53% |

Taflan sýnir að u.þ.b. jafnhá sorpgjöld eru greidd í öllum sveitarfélögunum hérna. Færa má rök fyrir því að við í Reykjanesbæ séum að niðurgreiða sorphirðu fyrir hinar byggðirnar á Suðurnesjum. Einhver stærðarhagkvæmni ætti að felast í því að við erum rúm 14 þúsund en íbúar í Garðinum t.d. eru rúm 14 hundruð. En svo er ekki af því að þrátt fyrir strjálbýlið í Garðinum eru sorpgjöld þar jafn há og hjá okkur, sem bendir ótvírætt til að við séum að standa straum af hluta kostnaðar við sorphirðu Garðbúa.
Hugsjónir um réttlátara samfélag leiða stundum til þess að peningar eru teknir af þeim ríku og færðir hinum fátækari á silfurfati. Á það við hérna? Erum við í Reykjanesbæ það vel stödd fjárhagslega að hafa efni á að niðurgreiða sorphirðu nágrannasveitarfélaganna?
Tvísköttunin
Ekki er nóg að greiða landsins hæstu sorpgjöld af því að þegar við ætlum að henda algengum úrgangi er fellur til við rekstur allra heimila erum við aftur rukkuð um sorpskatt! Ef ég er svo óheppinn að vinna sófasett í happadrætti og hendi gamla 2+3 settinu þarf ég að borga 1.750 krónur fyrir það hjá Kölku. Ef ég ætti heima í Garðabænum þyrfti ég ekki að borga neitt hjá Sorpu. Ef ólánið eltir mig áfram og saumaklúbburinn gefur mér rúm í afmælisgjöf þarf ég að borga 875 krónur fyrir að henda gömlu dýnunni í Kölku. Þyrfti ekki að borga neitt hjá Sorpu. Til allrar hamingju reikna ég ekki með að fá klósett, handlaug og baðkar í jólagjöf, en ef jólasveinninn birtist með postulínið þyrfti ég nefnilega að borga 3.500 krónur til að fá að henda þessu í Kölku. Svo skemmtilega vill til að ég fór með svona hluti til Sorpu fyrir nokkru og þar þurfti ég ekki að borga neitt. Allur vafi er líka túlkaður viðskiptavinum Sorpu í hag.
Á stöðum eins og Garðabæ, þar sem þarf að greiða um 20 þúsund krónur á ári í sorpskatt, er litið svo á að þessir hlutir séu eðlilegur hluti í endurnýjun heimilismuna og þeir eru innifaldir í skattinum. Hér á Suðurnesjum er hins vegar litið svo á að þeir séu ekki hluti af venjulegu heimilishaldi og þess vegna eigi að skattleggja þá sérstaklega við úreldingu. Þetta er ekkert annað en tvísköttun í reynd og það er ljót iðja að láta fólk borga tvisvar sinnum fyrir sama hlutinn.
Til að bíta höfuðið af skömminni segir framkvæmdastjóri Kölku okkur að við borgum hið sama fyrir sömu hluti í Kölku og í Sorpu. Það er ósatt, eins og allir geta sannreynt með því að skoða gjaldskrárnar.
Sósíalisminn
Það heitir ýmsum nöfnum þegar peningar eru teknir frá sumum til að létta líf annarra, en Karl Marx sagði að sérhver ætti að leggja til samfélagsins eftir bestu getu og sérhver að fá það sem hann þarf. Þannig er gæðum heimsins skipt réttlátlega á milli allra þegnanna og eftir þessari göfugu hugsjón er sorpmálum Suðurnesja ráðstafað.
Þegar sveitarfélög sameinast um að kaupa og veita rekstur og þjónustu er það oft gert með s.k. byggðasamlögum. Það er gleðilegt að sjá hve rekstur Sorpu hefur gengið vel og bætt líf skattgreiðenda á höfuðborgarsvæðinu, sbr. tölurnar í töflunni hér að ofan. Á hinn bóginn virðist þetta ekki hafa tekist á Suðurnesjum. Auk niðurgreiðslu á sorphirðu annarra leggja íbúar Reykjanesbæjar til tvo þriðju hluta rekstrarkostnaðar Kölku. Það hefur samt ekkert að segja þegar kemur að stjórnun stöðvarinnar af því sósíalisminn sér til þess að litlu sveitarfélögin allt um kring hafa meirihluta í stjórninni. Sá meirihluti ákvað tvísköttunina sem rædd er hér að ofan, enda bitnar hún að stærstum hluta á íbúum Reykjanesbæjar. Góð almenn regla í samskiptum er að hver hlúi að sínu og ávaxti það sem best. Því er ekki að heilsa þegar byggðasósíalisminn sér til þess að þeir sem minnst eiga í Kölku og minnst leggja til rekstursins ráðstafa framlögum meirihlutans og tvískatta hann að auki.
En þessari margföldu ofurháu skattheimtu verður að linna. Hvað erum við í Reykjanesbæ að fá fyrir 37 þúsund krónur sem íbúar á höfuðborgarsvæðinu eru ekki að fá fyrir 20 þúsund krónur? Svarið er: Ekki neitt – og tvísköttun að auki!
Ég á heima í Reykjanesbæ. En núna standa málin þannig að ef ég flyt í jafnstórt sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu hef ég 16.735 krónum meira á milli handanna eftir að skattar og skyldur þar eru greiddar. Er þetta eðlilegt ástand?
Ívar Pétur Guðnason