Bústoð 25 ára
Verslunin Bústoð hefur verið starfrækt síðan 1975 og er því 25 ára um þessar mundir. Eigendur hennar eru hjónin Róbert Svavarsson og Hafdís Gunnlaugsdóttir. Í Bústoð er gott úrval húsgagna fyrir heimilið en einnig hefur áhersla verið lögð á skrifstofuhúsgögn. Bústoð var fyrst til húsa að Vatnsnesvegi 14 en flutti í nýtt og glæsilegt húsnæði við Tjarnargötu árið1985. „Auk innlendra húsgagna koma þau víða að úr heiminum, t.d. frá Norðurlöndum, Þýskalandi, Ítalíu og Malasíu. Við erum með sígilda línu en einnig húsgögn sem eru í tísku hverju sinni. Í dag leggjum við áherslu á húsgögn fyrir heimili og skrifstofur en hér áður vorum við einnig með gólfefni og eldhúsinnréttingar“, segir Róbert.Að sögn Róberts hafa viðskiptavinir verslunarinnar haldið tryggð við hana í þau 25 ár sem hún hefur verið starfrækt enda eru vöruverð í Reykjanesbæ lægri en á Stór-Reykjavíkursvæðinu og á þetta einnig við um aðrar vörur. Miklar breytingar standa nú yfir á versluninni en verið er að flytja lagerinn í nýtt húsnæði við Hrannargötu 1. „Verslunin mun stækka um 300-400 fermetra þegar flutningum lýkur. Við ætlum að gera eitthvað sérstakt við það pláss sem þar skapast. Við getum kallað það „betri stofuna“ en þar munum við leggja áherslu á húsgögn í dýrari verðflokkum“, segir Róbert.Bústoð er eitt af eldri fyrirtækjum Reykjanesbæjar og Róbert þakkar lífaldurinn frábæru starfsfólki og tryggum viðskiptavinum. Þess má geta að þau hjónin hafa starfað saman frá 18 ára aldri og alla tíð unnið hlið við hlið í Bústoð. Bróðir Róberts, Herbert Svavarsson hefur starfað í versluninni í 23 ár og Erla Ásgrímsdóttir hefur unnið hjá þeim hjónum í 10 ár. Sonur þeirra, Reynir Þór Róbertsson hefur starfað þar í um 10 ár, en hann er nú verslunarstjóri. „Fyrirtækið væri ekki til í dag hefði maður ekki haft úrvalsstarfsfólk allan þennan tíma sem hefur veitt frábæra þjónustu. Svona rekstur byggist á að vera með gott fólk og fjölskyldan hefur alltaf staðið að baki þessu“, segir Róbert. Að lokum vill hann þakka fjölmörgum viðskiptavinum fyrir að halda tryggð við fyrirtækið.