Bus4u bætir við sig fólki eftir nýjan samning við Icelandair
-„Gjaldþrot WOW er skammtímahögg en framtíðin er björt,“ segir Sævar Baldursson, eigandi Bus4u
„Við fáum á okkur skammtímahögg vegna gjaldþrots WOW en vonumst til að geta hrist það af okkur sem allra fyrst. Með hliðsjón af nýjum samningum sem fyrirtækið hefur gert m.a varðandi áhafnaakstur Icelandair, miklar bókanir í sumar og fyrirhugaðar viðbætur í verkefnum sem við erum þegar að sinna, þá lítum við bjötum augum til framtíðar. Við munum ráða 10-15 manns í ný störf og um tíu í sumarstörf líka,“ segir Sævar Baldursson, eigandi ferðaþjónustu- og hópaferðafyrirækisins Bus4u í Reykjanesbæ.
Sævar segir það alveg ljóst að nú sé að hefjast niðursveiflutímabil en með þessum verkefnum sem Bus4u Iceland búi að muni fyrirtækið standa það af sér og vera á sterkum grunni í næstu uppsveiflu.
„Vegna stöðunnar með brotthvarfi WOW er nokkuð ljóst að við munum bera fjárhagslegan skaða en viðskiptakröfur okkar á WOW eru töluverðar fyrir fyrirtæki af okkar stærð og veltan minnkar einnig. Við erum að vinna að endurskipulagningu þ.e. breyta vöktum hjá starfsmönnum sem vinna í flugstöðinni, varðandi starfsmannaakstur til og frá flugstöðinni og fleira. Á hinn bóginn verðum við að bregðast við og draga úr kostnaði og hagræða eftir kostum. Við viljum halda í alla okkar starfsmenn og reyna sem minnst að útlista verkefnum til fyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu en við teljum mikilvægt bæði að sýna samfélagslega ábyrgð og að standa vörð um atvinnulífið hér á Suðurnesjunum,“ segir Sævar en hann undirritaði nýlega stóran samning við Icelandair um áhafnaakstur og er þess vegna að bæta við starfsfólki en vegna gjaldþrots WOW þurfi einnig að gera skipulagsbreytingar á rekstri Bus4u.
„Mig langar að nota tækifærið og óska öllum þeim velfarnaðar sem hafa misst vinnuna sína undanfarið vegna ástandsins sem hefur skapast vegna brotthvarfs WOW og þakka öllum sem áttu samstarf við okkur þar,“ sagði Sævar.