Búrhvalurinn í Höfnum dreginn á haf út
Búrhvalshræ sem rak á land í Höfnum sl. föstudag verður dregið á haf út við fyrsta hentugleika. Útlit er fyrir að það viðri vel til þess á morgun, miðvikudagsmorgun. Köfunarþjónusta Sigurðar ehf. mun sjá um verkið og hafa samráð við m.a. Landhelgisgæsluna, segir Gunnar Ellert Geirsson, deildarstjóri umhverfismála hjá Reykjanesbæ.
Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja barst tilkynning um hvalshræ við Hafnir á föstudaginn. Samkvæmt tilkynningunni berst ólykt frá hræinu í nærliggjandi hús. Fjölmargar stofnanir koma að ákvarðanatöku þegar hvalreki sem þessi verða. Þannig koma stofnanir eins um Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Hafrannsóknastofnun, Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja, Landhelgisgæslan, Reykjanesbær og Lögrelgan á Suðurnesjum að málinu.