Bundið slitlag á elsta göngustíg bæjarins
Árið 2013 fer í sögubækurnar í Garði sem ár göngustíganna. Göngustígurinn frá Garðskaga og að Nýjalandi var malbikaður í sumar og þar með varð til öruggari gönguleið sem liggur eftir gangstétt og göngustíg í gegnum allan Garðinn, allt frá innkomunni í byggðina við Réttarholtsveg og alla leið út á Garðskaga.
Nú í lok nóvember var síðan elsti göngustígurinn í Garði lagður bundnu slitlagi. Það er stígur sem liggur frá Melbraut og upp í gegnum byggðina upp að Ósbraut. Þessi stígur hefur í áratugi verið malarstígur en er nú orðinn malbikaður. Það var Gröfuþjónusta Tryggva Einarssonar sem sá um framkvæmdir en malbikunarstöðin Höfði lagði bundna slitlagið.
Myndirnar voru teknar þegar stígurinn var malbikaður í lok síðasta mánaðar.
(Úr blaðinu SUÐUR MEÐ SJÓ sem fylgdi Víkurfréttum 19. desember sl.)