Búnaður fiskimjölsverksmiðju í Helguvík seldur til Marokkó
Töluverður áhugi á húsnæði Síldarvinnslunnar
Búnaður fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Helguvík hefur verið seldur til Marokkó. Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar hf., segir í samtali við Víkurfréttir að eftir því sem best sé vitað er skip á vegum kaupanda á leið til landsins að sækja búnaðinn í lok þessa mánaðar.
Fiskimjölsverksmiðja hóf starfsemi sína í Helguvík árið 1997 en í febrúar árið 2019 var tilkynnt um að starfsemi verksmiðjunnar yrði hætt. „Ástæða lokunarinnar er einfaldlega sú að rekstur verksmiðjunnar stendur ekki undir sér. Helsta ástæðan er síminnkandi hráefni til fiskimjölsverksmiðja, hækkandi kostnaður og auknar kröfur sem kalla á öflugar einingar og aukna hagræðingu. Uppistaða þess hráefnis sem borist hefur til verksmiðjunnar í Helguvík er loðna og hefur nýting verksmiðjunnar farið síminnkandi undanfarin ár. Óvissa um reksturinn hefur farið vaxandi vegna minnkandi loðnukvóta og mikillar óvissu um loðnuveiðar,“ sagði í tilkynningu um lokunina á sínum tíma.
Húsnæði verksmiðjunnar eru ennþá í eigu Síldarvinnslunnar. Gunnþór segir að varðandi nýtingu á húsnæðinu þá séu einhver verkefni í skoðun þar og hefur verið töluverður áhugi, en ekkert sem hann geti greint frá núna.