Búið að skipa framkvæmdahóp um Reykjanesbraut
Skipaður hefur verið framkvæmdahópur til að þrýsta á stjórnvöld að ljúka við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Keflavíkurflugvelli að höfuðborgarsvæði. Hópinn skipa þau Atli Már Gylfason, Páll Orri Pálsson, Teitur Örlygsson, Margrét Sanders, Örvar Kristjánsson, Sólborg Guðbrandsdóttir, Guðbjörg Sigurðardóttir, Leifur A. Ísaksson, Andri Þór Ólafsson, Kristján Jóhannsson, Marta Jónsdóttir, Ísak Ernir Kristinsson og Guðbergur Reynisson.
Í kjölfar banaslyss á gatnamótum Reykjanesbrautar og Hafnavegar á fimmtudag í síðustu viku var stofnaður hópur á Facebook undir yfirskriftinni Stopp hingað og ekki lengra og á stuttum tíma eru meðlimir hópsins orðnir yfir 16.000. Það voru þeir Guðbergur Reynisson og Ísak Ernir Kristinsson sem stofnuðu hópinn. Framkvæmdahópurinn mun vinna úr þeim tillögum sem komið hafa fram varðandi Reykjanesbraut og segir Ísak það ekki hafa verið erfitt að finna gott fólk til setu í honum. „Næstu skref verða að framkvæmdahópurinn hittist og setji fram opinbera kröfu um það hvað hann vill að komi út úr verkefninu. Við sjáum fyrir okkur að hópurinn fari nýjar og áhugaverðar leiðir,“ segir hann.
Sambærilegur hópur var stofnaður um síðustu aldamót til að þrýsta á um tvöföldun Reykjanesbrautar. Ísak segir nýskipaða framkvæmdahópinn búa vel að þeirri vinnu sem unnin var þá. „Þá vann fólk þetta frá grunni en nú viljum við að þeirri vinnu sem var hafin þá, verði lokið. Hópurinn sem starfaði í kringum aldamót vann þrekvirki og þetta verður sennilega auðveldara fyrir okkur í dag.“ Ísak segir það hafa komið á óvart hversu margir meðlimir þrýstihópsins á Facebook eru en ánægjulegt hversu margir blandi sér í umræðuna og að krafan sér skýr. „Við unum ekki við hálfklárað verk og viljum ljúka þessari framkvæmd sem hófst um aldamótin og hefur tekið alltof langan tíma,“ segir Ísak.
Nánar er fjallað er um tvöföldun Reykjanesbrautar í Víkurfréttum í dag og á vefnum næstu daga.