Búast við 400 fjölskyldum í jólaúthlutun
– hjá Fjölskylduhjálp Íslands í Reykjanesbæ
Fjölskylduhjálp Íslands í Reykjanesbæ fagnar fimm ára afmæli um þessar mundir. Þar starfa nú ellefu sjálfboðaliðar alla daga við að halda úti starfsemi samtakanna. Oft er unnið fram á kvöld og mikið að gera.
Anna Valdís Jónsdóttir verkefnastjóri hjá Fjölskylduhjálp Íslands veitir starfstöðinni í Reykjanesbæ forstöðu. Hún segir í samtali við Víkurfréttir að 250 íslenskar fjölskyldur leiti á náðir þeirra í Reykjanesbæ í hverjum mánuði og hópurinn sé ekkert að minnka þrátt fyrir að dregið hafi verulega úr atvinnuleysi.
Skjólstæðingarnir hér séu nú eldri borgarar og öryrkjar sem eigi erfitt með að ná endum saman. Þá er jafnframt mikið af ungum fjölskyldum og einstæðar mæður sem leita til Fjölskylduhjálpar í hverjum mánuði. Þá segir Anna Valdís að bæði flóttafólk og hælisleitendur leiti tilsvert til samtakanna í Reykjanesbæ. Anna Valdís segir að eldri borgurum og öryrkjum sem leiti til Fjölskylduhjálpar fari fjölgandi.
Anna Valdís segir Fjölskylduhjálp Íslands ekki fá neina styrki úr Reykjanesbæ og starfsemin sé rekin fyrir það fé sem safnast með rekstri markaðar með nýjar og notaðar vörur á Baldursgötu í Keflavík. Þá biðlar Anna Valdís til fólks sem getur lagt eitthvað til að hafa samband við Fjölskylduhjálpina. Framundan eru stórar úthlutanir, m.a. jólaúthlutun 22. desember. Þar er reiknað með að 400 fjölskyldur leiti aðstoðar í Reykjanesbæ.
Fjölskylduhjálp Íslands kaupir allan mat fyrir úthlutunina. Til að afla frekara fjár hefur verið settur upp jólamarkaður í aðstöðu Fjölskylduhjálpar Íslands við Baldursgötu þar sem seld er bæði ný og notuð jólavara og skrautmunir. Þá er einnig fatamarkaður á sama stað sem Anna Valdís segir ganga vel og fólk sé duglegt að sækja hann og versla. Þá biðlar Anna Valdís til fiskvinnslufyrirtækja á Suðurnesjum að þau gefi t.a.m. fisk í eina fiskmáltíð í mánuði.
Í desember verður sett upp pakkatré við Nettó í Krossmóa þar sem fólk getur sett pakka undir tréð sem dreift verður til barna á Þorláksmessu. Er fólk hvatt til að setja gjafir undir tréð og merkja þær kyni og aldri.
Úr markaði Fjölskylduhjálpar Íslands í Reykjanesbæ.