Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Búast má við frekari uppsögnum
Miðvikudagur 29. október 2003 kl. 10:43

Búast má við frekari uppsögnum

Búast má við frekari uppsögnum á næstunni í störfum tengdum Varnarliðinu og er þá helst rætt um starfsemi verktaka innan varnarsvæðisins. Í tilkynningu frá Varnarliðinu sem barst fjölmiðlum í gær segir að frekari sparnaðaraðgerðir séu fyrirhugaðar hjá Varnarliðinu, s.s. endurskoðun þjónustu- og smærri verksamninga. Íslenskir Aðalverktakar hefur verið leiðandi fyrirtæki í viðhaldsverkefnum fyrir Varnarliðið í gegnum árin og segir Stefán Friðfinnsson forstjóri Íslenskra Aðalverktaka að búast megi við uppsögnum hjá fyrirtækinu í ljósi samdráttar hjá Varnarliðinu. „Ég bara gef mér það að þetta komi eitthvað við okkar starfsemi innan Varnarliðsins. Við erum mjög samtengdir starfsemi Varnarliðsins og með ýmsa verk- og þjónustusamninga.“

 

Hjá Íslenskum Aðalverktökum starfa 205 manns á Keflavíkurflugvelli og að sögn Stefáns eru það nær eingöngu Suðurnesjamenn. Aðspurður segist Stefán vera viss um að segja þurfi upp fólki. „Það hefur ekkert gerst formlega í þessu sambandi, en það er ljóst að allar breytingar Varnarliðsins hafa áhrif á starfsemi Íslenskra Aðalverktaka. Ég er alveg viss um að það þurfi að segja upp fólki, það er frekar spurning um hvenær og hve mörgum þarf að segja upp störfum,“ sagði Stefán í samtali við Víkurfréttir.

 

Hjá Keflavíkurverktökum starfa 95 manns á Keflavíkurflugvelli og langstærstur hluti þeirra starfsmanna eru Suðurnesjamenn. Fyrir rúmu ári var 70 manns sagt upp hjá fyrirtækinu og má rekja þær uppsagnir til samdráttar í verkefnum fyrir Varnarliðið. Kári Arngrímsson forstjóri Keflavíkurverktaka sagði í samtali við Víkurfréttir að hann búist ekki við að þurfa að segja upp starfsmönnum. „Maður fer ekkert að velta uppsögnum fyrir sér fyrr en eitthvað er komið í ljós. Ég held að það sé allt of fljótt að fara að spá í þetta.“ Kári segir að gera megi ráð fyrir því að samningar verði endurskoðaðir ef fólki hjá Varnarliðinu fækkar. „Þjónustusamningar eru þess eðlis að tryggja að dagleg starfsemi gangi. Í raun eru þessir þjónustusamningar í stöðugri endurskoðun, en þetta snýst bara um fjölda fólksins á svæðinu.“

 

VF-ljósmynd/HBB.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024