BSRB krefst þess að horfið verði frá einkavæðingu öryggisgæslu á Keflavíkurflugvelli
BSRB mótmælir harðlega einkavæðingu á öryggisgæslu á Keflavíkurflugvelli og krefst þess að hún verði þegar í stað að nýju færð í hendur opinberra löggæsluyfirvalda.
Eins og fram hefur komið í umræðu á liðnum vikum hefur öryggisgæsla við vopnaleit á Keflavíkurflugvelli verið einkavædd að hluta. Í stað þess að opinber löggæsluyfirvöld fari með stjórn þeirra mála hefur eftirlitið verið falið sjálfstæðum fyrirtækjum í eigu einkaaðila. Slík öryggisgæsla hlýtur að falla undir starfsemi opinberra löggæsluyfirvalda, sem hafa m.a. það hlutverk að halda uppi allsherjarreglu og tryggja öryggi íslenskra borgara á íslensku landssvæði. Um opinbera stjórnsýslu gildir ákveðinn lagarammi til að tryggja almannahag og í samræmi við það eru gerðar strangar kröfur til opinberra embættismanna á sviði löggæslu er varðar fagmennsku, menntun og hæfni. Þá má ekki gleyma því að megin markmið einkarekinna fyrirtækja í samkeppnisrekstri er að skila hagnaði og er hætt við að slík sjónarmið ráði för við reksturinn. Það getur í þessu tilviki haft áhrif á öryggi þeirra borgara sem um Leifsstöð fara hverju sinni. Þegar öryggisvá af því tagi sem nú er uppi hlýtur öllum að vera það ljóst að slík öryggisverkefni hljóta og eiga að vera á forræði opinberra aðila.