Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

BS: Fyllstu varúðar gætt við geymslu flugelda í Rammahúsinu
Fimmtudagur 29. desember 2005 kl. 01:46

BS: Fyllstu varúðar gætt við geymslu flugelda í Rammahúsinu

Íbúum Reykjanesbæjar er greinilega mikið í mun um öryggi samfélagsins því töluvert hefur verið spurt um hvort gamla „Byko-Ramma“ húsið við Seylubraut í Njarðvík sé birgðageymsla fyrir „sprengiefni.“  Víkurfréttir leituðu svara hjá Sigmundi Eyþórssyni, slökkviliðsstjóra Brunavarna Suðurnesja, sem hafði þetta um málið að segja:

„Jú, rétt er það að um er að ræða birgðageymslu þar sem flug- og skoteldar eru teknir og flokkaðir til útkeyrslu og dreifingar á sölustaði.  Húsnæðið er hagkvæmt fyrir þessa notkun þar sem það er vel varið með bruna-og vatnsúðunarkerfi (sprinkler), og að auki er byggingarmáti þess þannig að léttbyggðar plötur í þaki gefa góða útloftum og létta þrýsting af burðarvirki ef bruni verður.“
 
Þegar mest lét voru um 160 tomm af skot- og flugeldum í húsinu, en Sigmundur segir að þessi notkun á Rammahúsinu sé einungis tímabundin og hætta sem stafaði af þeim hafi verið í lágmarki. „Vörurnar eru tilbúnar í neytendapakkningum, teknar úr gámum á vörubrettum og komið fyrir á ákveðnum stöðum í húsnæðinu. Mikið af lagernum hefur nú þegar verið dreift á áfangastaði söluaðila og lagerinn fer stöðugt minnkandi. Eigendur vörunnar, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, fylgdu öllum ábendingum okkar og samstarfið hefur verið mjög gott. Sameiginlega voru settar fram öryggisreglur m.a. var sett upp öryggis- og myndavélakerfi og viðeigandi merkingar. Sólarhringsviðvera er í húsnæðinu, aðkoma að húsnæðinu og umferð á lóð er takmörkuð við ákveðinn tíma í sólahringnum. Þá er vinnuferli Brunavarna Suðunesja með þeim hætti að bein fjarskipti eru milli Ramma og varðstofu slökkviliðs BS. Að auki framkvæmir forvarnarfulltrúi daglegar skoðanir á staðnum til að kanna og meta ástand og tryggja að vinnureglum sem og öðrum ákvæðum sé fullnægt í hvívetna.“

Sigmundur segir að lokum að þeir telji þetta fyrirkomulag mun betra heldur en verið hefur undanfarin ár, en þó eru hugmyndir komnar fram um varanlega lausn á málinu með því að byggja þar til gerða geymslu fyrir skot- og flugelda.

VF-mynd/Þorgils: Innan úr Ramma fyrir nokkru þegar sem mest var af flugeldum í húsinu. Nú er mestallt farið á sölustaði um allt land.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024