Brýnt að koma íbúðum Íbúðalánasjóðs í Sandgerði í not
Í ljósi þeirrar atvinnuuppbyggingar sem nú er í Sandgerðisbæ og vaxandi þörf fyrir íbúðarhúsnæði telur bæjarráð Sandgerðis mjög brýnt að því verði hraðað eins og kostur er að húseignum Íbúðalánasjóðs í Sandgerðisbæ verði komið í not, ásamt því að þeim og umhverfi þeirra verði haldið við og er bæjarstjóra falið að senda sjóðnum erindi þess efnis.
Bæjarráð Sandgerðis átti á dögunum fund með Ágústi Kr. Björnssyni sviðsstjóra eignasviðs Íbúðalánasjóðs. Ágúst fór yfir stöðu mála varðandi eignir sjóðsins, regluverk Íbúðalánasjóðs um ráðstöfun eignanna og lög varðandi málaflokkinn. Farið var yfir málefni sjóðsins í Sandgerðisbæ og ákveðið var að halda samstarfsfund bæjarstjóra og sviðsstjóra umhverfis- og byggingamála með fulltrúa sjóðsins hið fyrsta.