Brýnt að fá bætta vegtengingu upp á Reykjanesbraut
Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa lengi sóst eftir því hjá Vegagerðinni að hún heimili bæjarfélaginu að nota svokallaðan Olíuveg, vegspotta sem nær frá Smiðjuvöllum upp á Reykjanesbraut. Með þessum vegi kæmi tenging á miðsvæði Reykjanesbæjar við Reykjanesbrautina sem myndi t.d. stytta viðbragðstíma slökkviliðs- og lögreglu upp á Reykjanesbraut. Enn sem komið er hefur Vegagerðin ekki viljað taka þátt í kostnaði á þessari framkvæmd en viðræður eru í gangi.
„Helstu rök okkar fyrir þessari tengingu eru að hún bætir tvímælalaust viðbragðstíma slökkviliðs og lögreglu upp á Reykjanesbraut þar sem Njarðarbrautin er mjög þröng og umferðarþunginn mikill þar. Við höfum meðal annars fengið erindi frá þessum embættum þar sem óskað er eftir að þessi tenging komist í gagnið sem fyrst. Önnur rök fyrir þessu eru að önnur og betri nýting verður á Þjóðbrautinni og þar sem þessi vegur er nær fullgerður má gera þetta með tiltölulega litlum kostnaði,“ segir Guðlaugur H. Sigujónsson, framkvæmdastjóri Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar.
Guðlaugur segir veginn geta orðið góða bráðabrigðalausn þar til framtíðartenging Þjóðbrautarinnar svokölluðu kemur, sem er vegur með Reykjanesbraut að mislægum gatnamótum rétt norðan við núverandi Grænásgatnamót.
„Við munum svo, ef við fáum þessa tengingu, loka tengingu Flugvallarvegar upp á Reykjanesbraut, en sá vegur er ónýtur og er hættuleg tenging á brautina. Við höfum að beiðni lögreglu sett upp vegatálma eða hindranir á Olíuveginn og nú er einungis lögreglu og slökkviliði heimilt að keyra þarna um. Þessi leið er mikið notuð af íbúum og við viljum fara í að setja malbik á allan veginn, bæta tengingu við Reykjanesbrautina og gera hana sambærilega Aðalgötu tengingunni. Þessar viðræður ganga nú ágætlega og ég er vongóður um að þetta fáist í gegn á næstunni,“ sagði Guðlaugur ennfremur.