Brynja Árnadóttir ráðin skólastjóri Myllubakkaskóla
Brynja Árnadóttir hefur verið ráðin skólastjóri Myllubakkaskóla. Var ráðning hennar samþykkt á fundi bæjarráðs í morgun.
Brynja hefur starfað sem kennari við Myllubakkaskóla frá árinu 1963, sem þá hét Barnaskóli Keflavíkur. Frá því í ágúst í fyrra hefur Brynja verið starfandi skólastjóri Myllubakkaskóla ásamt Sigurði Ingimundarsyni eftir sviplegt fráfall Vilhjálms Ketilssonar skólastjóra.
Brynja sagði í samtali við Víkurfréttir að hún ætti ekki von á neinum stórvægilegum breytingum í skólastarfinu. „Skólastarf breytist með reglulegum hætti, það er bara eðli starfsins. Tíminn framundan er spennandi. Hér er frábært starfsfólk sem ég trúi að muni vinna jafnvel og það hefur gert hingað til.“
Alls sóttu sjö um skólastjórastöðu Myllubakkaskóla. Umsækjendur voru: Björgvin Þór Þórhallsson, Sigurlín Sveinbjarnardóttir, Brynja Árnadóttir, Daði V. Ingimundarson, Leifur Ísaksson, Sigurður Þ. Ingimundarson og Björn Víkingur Skúlason.