Bryn Ballett kennir á grunn- og framhaldsskólastigi
Bryn Ballett Akademían (BBA), listdansskóli í Reykjanesbæ hefur hlotið viðurkenningu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins til að kenna listdans á grunn- og framhaldsskólastigi samkvæmt aðalnámskrám listdansskóla og framhaldsskóla í listdansi 2006. Kennslan á kjörsviði listnámsbrautar fer fram í samstarfi við Fjölbrautarskóla Suðurnesja og við Keili um námsferilskráningu hjá listdansskólanumog nemenda ráðgjöf. Skólinn hefur það að markmiði að veita nemendum þekkingu og sterka undirstöðu í klassískum ballett og nútímalistdansi á heimsvísu.
Inntökupróf munu fara fram vegna grunnnáms í listdansi hjá grunnskóladeild fimmtudaginn 19. ágúst 2011 í BBA og mun framhaldsskóladeildin byrja hægt og sígandi með því að nemendur við FS geta hafið nám í vissum áföngum í klassískum- og nútímalistdansi og fengið það nám metið til eininga. Síðan mun framhaldsskóladeildin starfa af fullum krafti skólaárið 2012-2013 og verða inntökupróf haldin í listdansskólanum í maí 2012.
Listdanssnámi í Bryn Ballett Akademíunni (BBA) verður skipt í tíu samliggjandi stig, sem hvert um sig tekur eitt ár að ljúka. 1.-7. stig á grunnskólastigi fyrir 9-15 ára og síðan eru þrjú stig á framhaldsskólastigi fyrir 16 ára og eldri. Skólaárinu er skipt í haust- og vorönn og er skólaárið að meðaltali 36 vikur í heild. Kennsla hefst mánudaginn, 23 ágúst hjá listdansbrautinni.
Listdansskólinn opnaði í Reykjanesbæ árið 2008 og er skólinn staðsettur á Ásbrú, í fyrrverandi skotfærageymslu varnarliðsins. Starfsaðstaða skólans er til fyrirmyndar. Í skólanum er búningsaðstaða með sturtum, verslun með ballett- og dansfatnað og biðstofa. Kennsla fer fram í 218 fm danssal sem er með sérútbúnu dansgólfi og dansdúk, ballett stöngum, speglum og hljómflutningstækjum. Tveir minni salir í skólanum verða teknir í notkun fljótlega. Skrifstofa og kaffistofa er einnig til staðar fyrir starfsfólk.
Dansbókasafn er til staðar fyrir nemendur. Bryn Ballett Akademían (BBA) er einkarekinn listdansskóli sem leggur sérstaka áherslu á að túlka dansinn sem listform og er hlutverk skólans að efla menningu og örva nýsköpun á sínu sérsviði í Reykjanesbæ, á Íslandi og erlendis. Skólinn á samstarf við aðra listdansskóla og dansskóla á Íslandi, í þeim tilgangi til að efla kynni nemenda og kennara, auka fjölbreytni í námi og framþróa þekkingu á sviði listdansins. Einnig mun skólinn starfa á alþjóðlegum grundvelli með samstarfi við erlenda listdansskóla. Listdansskólinn setur upp sýningar og listaviðburði sem opnir eru almenningi. Einnig mun skólinn vinna þverfaglega við aðrar listgreinar og þannig auka við þekkingu nemenda sinna í sem víðtækustum skilningi. Forskóli mun sem áður vera starfræktur við skólann fyrir yngstu kynslóðina, 3ja - 8 ára og mun áframhaldandi almenn braut vera í boði fyrir þá sem vilja stunda dansnám sem tómstund. Kennsla hjá forskóla og almennri braut hefst 5. Sept. Nemendasýningar skólans fara fram á vor- og haustönn í Andrews leikhúsinu á Ásbrú sem er 499 sæta leikhús. Yfir skólaárið hafa nú þegar yfir 200 nemendur stundað nám við skólann.
VIÐURKENNT NÁMSFRAMBOÐ
Í grunnskóladeild þá er grunnnámið klassískur ballett og við það bætast önnur fög; spuni, nútímalistdans, karakter, táskór, danssmíði og jazzballett. Frá 9 ára aldri stunda nemendur nám fyrsta árið þrisvar sinnum í viku og eykst námið hægt og sígandi upp í 14-15 klukkustundir á viku í 7. flokki, efsta flokki grunnskóladeildar.
Framhaldsdeild skiptist í tvær brautir á kjörsviði annars vegar sem klassískur listdans og hins vegar sem nútímalistdans. Þegar framhaldsskóladeildin tekur til fullra starfa fyrir skólaárið 2012-2013 þá munu nemendur þreyta inntökupróf í maí n.k. inn í framhaldsskóladeildina og velja þá hvora brautina þeir vilja einbeita sér að og er námið framhald af því sem að þeir lærðu á grunnskólastigi. Nemendur stunda listdansnámið í allt frá 15-20 tímum á viku í BBA að loknum námsdegi í sínum framhaldsskóla. Listnámsbraut er þriggja ára námsbraut og með skilgreindu viðbótarnámi má ljúka stúdentsprófi af henni. Með þessu er nemendum veittur kjarngóður grunnur að frekari námi í listdansi, í sérskólum eða skólum á háskólastigi hérlendis sem og erlendis. Hver sá er hugar að framtíð innan listdansins getur skráð sig í inntökupróf. Æskilegt er að nemendur er hyggja á inntökupróf í listdansnám hafi lokið grunnnámi í listdansi eða hafi lokið sambærilegu námi.
MARKMIÐ NÁMSINS OG ÁHERSLUR
Meginmarkmið listdansskólans er að mennta listdansara og undirbúa þá fyrir háskólanám á sínu sérsviði eða atvinnumennsku í dansi. Efla færni og þekkingu þeirra sem myndu vilja starfa sem atvinnu dansari í klassískum- eða nútímalistdansi eða hafa atvinnu sem danshöfundur, dansfræðingur, rannsakandi á sviði danslista, dansgagnrýnandi, listdanskennari, kennslufræðingur í listdansi og svo lengi mætti telja. Stefna skólans er að leggja sérstaka áherslu á að styðja við framþróun nýrrar dansþekkingar af krafti og stuðla að skilningi á færni, styrkleika líkamans og listrænni tjáningu einstaklingsins, undir faglegri og metnaðarfullri leiðsögn. Hlúa að jákvæðni, sjálfstrausti og öryggi nemenda, efla samskipti, sjálfsaga og virkja dansgleði nemenda sinna.
Lykilhugtök við framsetningu námsins eru þekking, framþróun, kraftur, hæfni og listræn sköpun og eru þau í hávegum höfð í öllu starfi skólans. Þannig verður skólinn samkeppnishæfur við hina bestu listdansskóla erlendis.
Bryndís Einarsdóttir er skólastjóri og ballettmeistari skólans. Hún hefur kennt dans víða um heim síðastliðna tvo áratugi og var með eigin skóla í London. Bryndís útskrifaðist frá California Institute of the Arts með BFA gráðu og kennslufræðum í klassískum listdansi frá Royal Academy of Dance. Hún útskrifaðist með diploma við listkennsludeild frá Listaháskóla Íslands, er meðlimur hjá International Dance Teachers Association, Royal Academy of Dance og Félagi Íslenskra Listdansara.
„Bryndís segist vera hæstánægð með viðurkenningu Mennta- og menningarmálaráðuneytisins til listdansskólans. Það eru aðeins tveir aðrir skólar á Íslandi sem eru viðurkenndir til kennslu á kjörsviði í klassískum listdansi; Listdansskóli Íslands og Klassíski Listdansskólinn. Einnig eru þessir tveir listdansskólar viðurkenndir til kennslu á kjörsviði í nútímalistdansi ásamt Danslistarskóla JSB.
Allir þrír skólarnir eru einnig viðurkenndir til kennslu á grunnnámi í listdansi fyrir grunnskólastigið.
Það er ánægjulegt að vera komin í hóp þessara faglegu og metnaðarfullu skóla í Reykjavík, að geta veitt þetta nýja námsframboð hérna á Suðurnesjunum fyrir unga og hæfileikaríka nemendur sem vilja stunda klassískan ballett eða nútímalistdans. Námið er krefjandi og-, það tekur mörg ár að búa til þroskaðan listdansara, að þjálfa vöðva líkamans og öðlast sjálfsaga. Listdans er góður ferðafélagi út í lífið, inn í framtíðina, þar sem dansgleði ræður ríkjum og andleg og félagsleg vellíðan blómstrar.
Við erum í þann mund að fara að auglýsa eftir fleiri faglærðum kennurum við skólann og undirbúa stundatöfluna fyrir skólaárið hérna í BBA á Ásbrú. Það er síðan mikið tilhlökkunarefni að vera í faglegu samstarfi við Fjölbrautarskóla Suðurnesja og Keili. Ný og aðgengilegri vefsíða skólans með vefslóðina www.bryn.is mun opna á næstu dögum og þar verður að finna nánari upplýsingar um námsframboð hjá Bryn Ballett Akademíunni.“
Kristján Pétur Ásmundsson, skólameistari hjá FS: „Mér finnst þetta frábært framtak hjá Bryndísi og óska henni alls hins besta með þetta. Tilkoma listdansskólans eykur fjölbreytileikann og breiddina í námsframboði á Suðurnesjum sem er mjög gott fyrir nemendur. Ég fagna þessari viðurkenningu listdansskólans og hlakka til samstarfsins við Bryndísi með listdansbrautina”.