Bryggjuhúsið: Ekkert með flokksskírteini að gera
Böðvar Jónsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, segir það rakalausan málflutning að halda því fram að flokkskírteini hafi haft áhrif á þá ákvörðun meirihlutans í bæjarráði að taka ekki tilboði lægstbjóðanda í fyrsta áfanga framkvæmda við bryggjuhús Duushúsa.
Tvö tilboð bárust í verkið. Hærra tilboðið hljóðaði upp á tæpar 24,5 milljónir króna en það lægra upp á tæpar 22,3 milljónir. Kostnaðaráætlum var upp á tæpar 19,3 milljónir króna.
„Það læðist að manni sá grunur að þarna hafi flokksskírteini haft áhrif ,“ var haft eftir Guðbrandi Einarsyni, oddvita A-lista, í morgun.
„Að flokkskírteini hafi eitthvað haft með þessa ákvörðun að gera er rakalaus málflutningur, sagði Böðvar í samtali við VF. „Ég veit ekkert hvort þeir sem fengu verkið eru Sjálfstæðismenn eða ekki, ég hef bara ekki hugmynd um það og það hefur ekkert með málið að gera.
Það eru oft fengnir ráðgjafar að svona málum, sem þá yfirfara tilboð og leggja fram tillögur fyrir ráðið. Í þessi tilfelli var það Verkfræðistofa Suðurnesja sem fór yfir tilboðin, skoðaði þá bjóðendur sem þarna voru og kallaði eftir nauðsynlegum gögnum. Í framhaldi af því var það þeirra tillaga að taka ekki tilboði lægstbjóðanda heldur hinu tilboðinu þó það væri ögn hærra. Meirihluti bæjarráðs fór að þeirri ráðgjöf og samþykkti það,“ sagði Böðvar.