Bryggjuhús klárað fyrir vorið 2010
Fyrsta áfanga í endurgerð Bryggjuhússins lauk rétt fyrir Ljósanótt í Reykjanesbæ og tóku þá margir íbúar fyrst eftir því hversu glæsilegt húsið er í hjarta bæjarins en það var byggt árið 1877 og er eitt af merkilegri húsum landsins.
Húsið var byggt af Hans Peter Duus kaupmanni og er stórt á þess tíma mælikvarða eða tvær hæðir og ris. Viðurinn í húsið var tekinn úr tveimur húsum sem Duus lét rífa og höfðu staðið á sama stað við Keflavíkurtún. Duusbryggjan var fram eftir því miðju.
Kostnaður við bygginguna á sínum tíma var kr. 16.000 og til viðmiðunar var áætlað um aldamótin að það myndi kosta kr. 20.000 að leggja veg frá Reykjavík til Keflavíkur. Bryggjuhúsið var stærsta bygging á Íslandi á þeim tíma fyrir utan Alþingishúsið, grunnflötur er 250 m2 á þremur hæðum. Í bryggjuhúsinu var einn af fáum brunnum þorpsins og var hann einungis til notkunar fyrir verslunina og kaupmannsheimilið.
Húsið þarfnaðist endurbyggingar, bæði innan- og utanhúss en allir grunnviðir voru góðir. Trésmiðja Stefáns og Ara skilaði húsinu fullkláruðu að utan en arkitekt er Arinbjörn Þorðvarðarson.
Áætlað er að framkvæmdum við húsið ljúki vorið 2010 og þar fari fram fjölbreytt menningarstarfsemi í sama anda og nú þegar er hafinn í Duushúsunum, menningar- og listamiðstöð Reykjanesbæjar.