Brunninn á höndum eftir eld í rafmagni
Sjúkraflutningsmenn voru rétt í þessu að flytja karlmann undir læknishendur með brunasár á höndum og hugsanlega reykeitrun eftir að eldur kom upp í íbúðarhúsi við Sjávargötu í Njarðvík.
Frumrannsókn brunans bendir til þess að eldurinn hafi komið upp í fjöltengi við sjónvarpstæki á efstu hæð hússins. Eldurinn barst síðan með rafmagnssnúrunni upp í sjónvarpstæki sem varð alelda og virðist hafa sprungið.
Þegar slökkvilið kom á staðinn voru húsráðendur búnir að bera út úr íbúðinni ýmislegt smálegt til að forða því frá eldinum og einnig einhverja hluti sem höfðu orðið eldinum að bráð. Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri Brunavarna Suðurnesja, sagði að húsráðendur, sem eru að erlendum uppruna, hafi í fyrstu afþakkað alla frekari aðstoð en síðar óskað eftir sjúkrabifreið þar sem einn þeirra hafi brunnið á höndum og væri líklega með reykeitrun. Hann er núna undir eftirliti læknis á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Myndir: Frá vettvangi brunans nú áðan. Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson