BRUNI Í LÍNUBÁTNUM FJÖLNI GK FRÁ GRINDAVÍK
Línuskipið Fjölnir GK frá Grindavík verður frá veiðum næstu mánuði vegna bruna í vistarverum skipsins í nótt.Skipið var að koma úr endurbótum í Njarðvík og kemur þetta því á versta tíma þar sem hávertíð er að hefjast.Fjórir skipverjar fóru með skipið frá slippnum í Njarðvík í gærkvöldi en þeir fóru frá því í Grindavíkurhöfn á þriðja tímanum í nótt. Þegar Páll Pálsson, útgerðarmaður hjá Vísi sem gerir skipið út, kom að því í morgun var mikill reykur og hiti frá íbúðum en lítill eldur. Hann hafði þegar samband við neyðarlínuna í síma 112 og mætti slökkvilið skömmu síðar. Svo virðist sem enginn hafi orðið eldsins var sem talið er að hafi komið upp í gangi fyrir framan vistarverur skipverja einhvern tíma á bilinu frá klukkan 3 til 8 í morgun. John Hill, rannsóknarlögreglumaður frá Keflavík segir engan veginn hægt að segja til um hvernig eldurinn hafi komið upp. Hann segir skemmdir verulegar neðan þilja í skipinu en aðallega vegna reyks og hita í mannaíbúðum. Páll segir ljóst að skipið verði frá veiðum nú í byrjun vertíðar í að minnsta kosti tvo mánuði. „Þetta er mjög slæmt. Það er ljóst að þetta er milljónatjón og eins er þetta slæmt fyrir mannskapinn sem er að hefja vinnu, allir blankir eftir jólin.