Bruni í koparhaug olli sinubruna
– mikinn reyk lagði frá sinubruna á Keilisnesi
Aðili sem kveikti í haug af koparvír á Keilisnesi í hádeginu varð valdur að stórum sinubruna sem sást víða að. Fjórir slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Suðurnesja voru sendir á staðinn á dælubíl og tankbíl.
Þegar að var komið var töluverður eldur í sinu á stóru svæði. Mikinn reyk lagði frá sinubrunanum. Reykurinn sást víða að, m.a. frá höfuðborgarsvæðinu. Reykarlyktina lagði svo yfir Voga og Reykjanesbæ.
Upptök eldsins voru í haug af koparvír á svæðinu. Einhver hefur komið haugnum fyrir á svæðinu og gert tilraun til að brenna plast- og gúmmíhúð af vírnum með þessum afleiðingum.
Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar slökkvistarfinu var að ljúka nú áðan.
VF-myndir: Hilmar Bragi
Eldsupptökin voru í þessum haug á svæðinu.