Brunavarnir Suðurnesja högnuðust um 8,4 milljónir
Fyrsti ársfundur haldinn í Sandgerði í gær
Fyrsti ársfundur Brunavarna Suðurnesja (BS) var haldinn í Sandgerði í gær, fimmtudag. Þar var lagður fram ársreikningur þar sem fram komu upplýsingar um afkomu félagsins, efnahag og breytingu á handbæru fé árið 2015. Á fundinum var farið vandlega yfir aukin umsvif félagsins í takt við aukningu íbúa á svæðinu.
Hagnaður ársins nam um 8,4 milljónum króna. Heildareignir námu um 382,7 milljónum og eigið fé var jákvætt um 314,8 milljónir. Reiknuð stöðugildi voru innan BS voru 26 árið 2015, en alls eru starfsmenn þó 42 talsins. Frá og með 1. janúar 2015 hafa Brunavarnir Suðurnesja verið reknar í formi byggðasamlags þar sem Reykjanesbær á tvo fulltrúa, Sandgerði, Garður og Vogar eiga öll einn fulltrúa. Öll sveitarfélögin á Suðurnesjum utan Grindavíkurbæjar standa að byggðasamlaginu.
Á þjónustusvæði BS um síðustu áramót bjuggu 19.383 íbúar, og hefur þeim fjölgað talsvert undanfarin ár. Margvísleg verkefni eru einnig í tengslum við aukinn fjölda ferðamanna sem fara um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, ekki síst sjúkraflutningar. BS hafa þegar unnið og fengið samþykkta brunavarnaáætlun fyrir starfssvæðið, sem jafnframt hefur verið samþykkt af Mannvirkjastofnun.