Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Brunamálaskólinn fær fyrsta flokks aðstöðu á Miðnesheiði
Fimmtudagur 1. mars 2007 kl. 12:31

Brunamálaskólinn fær fyrsta flokks aðstöðu á Miðnesheiði

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra tekur í dag, fimmtudaginn 1. mars, formlega í notkun nýtt húsnæði Brunamálaskólans á gamla varnarsvæðinu á Miðnesheiði. Skólinn hefur ekki áður haft fast aðsetur. Björn Karlsson brunamálastjóri segist binda vonir við að nýja húsnæðið verði starfseminni lyftistöng enda skipti hún miklu um hvernig staðið er að eldvörnum, björgun og slökkvistarfi um allt land og þar með öryggi landsmanna. Góð aðstaða er til bóklegrar og verklegrar kennslu fyrir nemendur skólans sem eru árlega á bilinu 200-300 talsins.

Fyrstu nemendurnir hafa þegar hafið nám á nýja staðnum því 16 manns taka nú þátt í fyrri hluta þriggja mánaða námskeiðs fyrir atvinnuslökkviliðsmenn. Námskeið fyrir slökkviliðsstjóra stendur einnig yfir.

Húsnæðið er 400 fermetrar að stærð. Þar eru kennslustofur og starfsaðstaða fyrir skólastjóra og kennara, auk 100 fermetra aðstöðu til verklegrar kennslu. Að sögn Elísabetar Pálmadóttur skólastjóra er góð aðstaða á svæðinu til að kenna reykköfun, björgun úr bílflökum, neyðarakstur og fleira sem slökkviliðsmenn læra á námskeiðum skólans.

Brunamálaskólinn hefur verið starfræktur á vegum Brunamálastofnunar frá stofnun hans árið 1994. Hlutverk skólans er að veita slökkviliðsmönnum og eldvarnaeftirlitsmönnum um allt land þá menntun, starfsþjálfun og endurmenntun sem nauðsynleg er vegna starfa þeirra.

 

Mynd: Slökkviliðsmenn við æfingar í æfingaaðstöðu í Helguvík í morgun. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024