BRÚÐUBÍLLINN Í SANDGERÐI
Brúðubíllinn verður í Sandgerði sunnudaginn 7. febrúar kl. 15. Sýnt verður í Samkomuhúsinu.Brúðuleikritið BRÚÐUR, TRÖLL OG TRÚÐAR er byggt upp á stuttum leikþáttum, söngatriðum og skemmtiþáttum. Það er gleðin og grínið sem ræður ríkjum en fræðslan er alltaf með. Við sjáum lítinn söngleik um hafið, því eins og og við vitum öll var árið 1998 ár hafsins. Leikritið um tröllið og geiturnar þrjár í nýrri leikgerð og við veltum fyrir okkur hvað er ímyndun og hvað er raunveruleiki. Börnin eru virk eins og alltaf í leikhúsi Brúðubílsins.Handritið og brúðurnar eru eftir Helgu Steffensen og hún stjórnar þeim ásamt brúðuleikurunum Sigrúnu Erlu Sigurðardóttur og Herði Svavarssyni. Mikill fjöldi brúða kemur fram í sýningunni og eru þær af öllum gerðum og stærðum.Það eru leikararnir Pálmi Gestsson, Júlíus Brjánsson, Sigríður Edda Björnsdóttir og Helga Steffensen sem tala fyrir brúðurnar. Leikstjóri sýningarinnar er Sigrún Edda Björnsdóttir.