Brúað bil á milli HSS og bæjarfélaga í forvörnum í fjölskyldumálum
Gerður hefur verið samstarfssamningur milli Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) annars vegar og Sveitarfélagsins Garðs, Grindavíkurbæjar, Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagins Voga hins vegar, á sviði forvarna í fjölskyldumálum. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja leggur til þessa verkefnis laun þriggja starfsmanna í hálfu starfi þ.e. sálfræðing, félagsráðgjafa og iðjuþjálfa auk skrifstofuaðstöðu, fundaraðstöðu o.fl. Bæjarfélögin greiða launakostnað vegna starfs sérfræðings í hálfu starfi sem sinnir eingöngu verkefnum vegna íbúa þeirra í samstarfi við félags- og fræðsluskrifstofur þeirra. Skipting kostnaðar milli bæjarfélaganna miðast við íbúafjölda þeirra.
Uppeldisráðgjöf og fjölskylduráðgjöf
Markmiðið með aðkomu bæjarfélaganna að verkefninu er að auka þjónustu við íbúa sína, auka samvinnu við HSS og skapa samfellu í bæjarfélögunum milli greiningarvinnu, aðgerðaáætlunar og úrræða í kjölfar hennar. Hlutverk verkefnisins, sem byggir á teymisvinnu, er að veita ráðgjöf, meðferð og eftirfylgd til barna á aldrinum 0-10 ára og fjölskyldna þeirra sem eiga við geð- og/eða sálfélagslegan vanda að stríða. Með samningnum verður unnt að sinna mun betur þörfum leikskólabarna með hegðunarerfiðleika og fjölskyldum sem hafa orðið fyrir áfalli af einhverju tagi (skilnaður, slys, dauðsfall) og þar sem foreldrar hafa þörf fyrir uppeldisráðgjöf og fjölskylduráðgjöf.
Teymisvinna
Teymið vinnur eftir tilvísunum frá mæðra- og ungbarnavernd, læknum heilsugæslunnar, skólahjúkrunarfræðingum, félagsmála- og fræðsluskrifsstofum bæjarfélaganna en einnig hafa leikskólar í auknum mæli vísað málum til teymisins. Tilvísanir í teymið eru orðnar tæplega 100 en það er verið að kynna þessa starfsemi fyrir dagmæðrum og fleiri hópum. Mál eru tekin fyrir á vikulegum teymisfundum og þar er ákveðið hvaða starfsmenn koma að málinu og það sett í vinnslu. .
Forsaga
Teymið hóf starfsemi sína á haustmánuðum 2005. Í upphafi voru starfandi þrír sérfræðingar í hálfri stöðu við teymið þ.e. sálfræðingur, iðjuþjálfi og félagsráðgjafi. Í ágúst 2006 hófst síðan samstarf við Reykjanesbæ þegar ráðinn var sálfræðingur í einni stöðu en sá starfsmaður vinnur í nánu samstarfi við Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar að málum leikskólabarna. Með gerð þessa samnings eru hin bæjarfélögin að veita sambærilega þjónustu og Reykjanesbær er að veita.
Framsýni bæjarstjórna á Suðurnesjum
Vegna vaxandi þarfar á þessari þjónustu, fjárhagsstöðu HSS og nauðsyn þess að byggja brú á milli heilbrigðisstarfsmanna og félags- og fræðsluskrifstofa bæjarfélaganna, óskaði HSS eftir þátttöku bæjarfélaganna í verkefninu. Vegna framsýni bæjarstjórna og bæjarstjóra á Suðurnesjum, þá geta þau í samstarfi við HSS verið leiðandi aðili í að byggja upp forvarnar- og meðferðarstarf á sviði geðheilbigðismála fyrir börn og fjölskyldur þeirra.
Forvörn sem bætir líf og heilsu barna
Starfsmenn HSS telja að slík þjónusta, þar sem gripið er mjög fljótt inn vandamál, dragi úr þeim skaða sem vandamál viðkomandi heimilis geti haft á líf og heilsu barnanna. Þá trúa allir sem koma að þessari vinnu, að þetta starf muni skila sér til baka til sveitafélaganna með minni kostnaði í framtíðinni. Auk þess sem það er hagur íbúa svæðisins að stuðla að samvinnu milli heilbrigðisstarfsmanna og starfsmanna sveitafélaganna .
Mynd: Bæjarstjórar ásamt Drífu Sigfússdóttur frkv.stjóra HSS