Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Brú milli heimsálfa“ komið fyrir
Þriðjudagur 25. júní 2002 kl. 13:12

„Brú milli heimsálfa“ komið fyrir

Stór flutningaþyrla frá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli var rétt í þessu að leggja fyrsta brúarbitann af tveimur 22m löngum brúarbitum sem vega fimm og átta tonn yfir Haugsvörðugjá við Sandvík á Reykjanesi. Verkið er liður í verkefninu „Brú milli heimsálfa“ þar sem brúa á gjá þar sem jarðskorpuflekar Ameríku og Evrópu mætast en þeir ganga í gegnum Ísland.Mikið af fólki var saman komið til að fylgjast með þessum miklu framkvæmdum enda sögulegir atburðir að gerast á Reykjanesinu þar sem þetta er í fyrsta skipti sem slík framkvæmd á sér stað.

Brúnni verður komið fyrir yfir gjá sem myndast hefur vegna hreyfingar Evrópu- og Ameríkujarðflekanna sem rekast saman og þrýstast í sundur vegna jarðgosa neðan jarðar. Flekaskilin ganga í gegnum Ísland, frá Reykjanesi og norður fyrir land, og eru þau sýnileg víða.
Hugmyndin um gerð slíkrar brúar vaknaði fyrir um 8 árum og var það Jóhann D. Jónsson, ferðamálafulltrúi Reykjaness, sem átti hana. Hugmyndin hefur því verið lengi í gangi en ekki komist í framkvæmd fyrr en nú.

Brúin var smíðuð af Íslenskum aðalverktökum sem eru aðal stuðningsaðili verkefnisins og er hún 18m löng og situr á gjánni þar sem hún er um 6m há. Fólki gefst kostur á að fara yfir brúna hvenær sem er, því að kostnaðarlausu, og verða bílastæði skammt frá henni þar sem fólk getur lagt bílum sínum á meðan það gegnur milli heimsálfa. Ætlunin er að brúin verði sjálfbær því þeir sem svo ganga yfir brúna og ná þeim merka áfanga að ganga frá Evrópu til Ameríku eiga þess kost að fá viðurkenningu þess efnis að hafa gengið yfir flekana. Ekki væri það ónýtt að eiga slíkt skirteini til sönnunar þess að hafa gengið milli heimsálfa en markaðs- og atvinnumálastofnun Reykjanesbæjar sér um að úthluta slíkum viðurkenningum gegn vægu gjaldi.

Brúin verður vígð með pompi og prakt 5. júlí n.k. og munu fulltrúar ríkisstjórnar, forsætis-, samgöngu- og utanríkisráðherra verða við athöfnina og vígja brúna.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024