Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Brotthvarf VL: Áhyggjur vegna neikvæðra margfeldisáhrifa
Þriðjudagur 9. maí 2006 kl. 14:06

Brotthvarf VL: Áhyggjur vegna neikvæðra margfeldisáhrifa

Vel mátti greina áhyggjutón meðal starfsfólks VL, á stöðufundi sem Árni Sigfússon og Geir H. Haarde héldu í salarkynnum FS í gær. Fundarmenn höfðu m.a. áhyggjur af starfslokasamningum og neikvæðum margfeldisáhrifum vegna brotthvarfs VL en fjölmörg fyrirtæki bæði innan og utan vallar byggja afkomu sína á þjónustu við Varnarliðið.

Fram kom í máli fundarmanna að samdráttur hjá þessum fyrirtækjum væri óumflýjanlegur, sem hlyti óhjákvæmilega að hafa í för með sér minni þörf fyrir mannafla, þannig að ekki væri eingöngu verið að tala um uppsagnir 600 starfsmanna VL í þessu samhengi.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem blaðið hefur aflað munu 327 manns starfa innan vallar hjá fyrirtækjum sem byggja starfsemi sína eingöngu á þjónustu við VL. Þessir starfsmenn teljast ekki með þeim 600 starfsmönnum VL sem sagt hefur verið upp störfum. Þá á einnig eftir að taka með í reikninginn starfsmenn þeirra fyrirtækja sem starfa utan vallar og byggja að talsverðu eða einhverju leiti á þjónustu við Varnarliðið.

Ef notaður er sami stuðull og stuðst er við þegar reiknuð eru margfeldisáhrif af álveri á Reyðarfirði, má reikna með að brotthvarf VL hafi áhrif á störf 1500 manna. Kristján Gunnarsson, formaður VFSK segist hins vegar ekki vilja taka svo djúpt í árinni.

„Við sögðum í upphafi að við gætum verið að tala um 1000 manns í þessu samhengi. Það var dregið í efa en þegar þessar tölur hafa verið dregnar saman sjáum við að þetta er ekki óvarleg ályktun. Þá á eftir að taka inn í þetta þau áhrif sem brotthvarf VL hefur á aðra starfsemi utan vallar“, sagði Kristján í samtali við VF.

„Þegar þessi neikvæðu margfeldisáhrif verða bláköld staðreynd, má segja að þau verði timburmennirnir af þessu bjarsýnisfyllerí sem á vissan hátt virðist vera í gangi. Við höfum bent á þetta og fengið í skömm í hattinn fyrir að vera að mála skrattann á vegginn. Ég segi hins vegar að það er eitt að vera svartsýnn og annað að vera raunsær“, sagði Kristján.

Mynd: Það gefur auga leið að þörfin fyrir margvíslega þjónustu við VL hverfur við brottför þess. Þessi herramaður mun t.d. þiggja klippingu annarsstaðar í framtíðinni. VF-mynd: elg
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024