Brottfarir Icelandair nær oftast á tíma
Ófærð á Reykjanesbraut seinkaði millilandaflugi undir lok síðasta mánaðar. Þrátt fyrir það var héldu áætlanir á Keflavíkurflugvelli í flestum tilvikum seinni tvær vikurnar í janúar.
Þrjár af hverjum fjórum flugferðum Icelandair til og frá landinu voru á réttum tíma á seinni hluta nýliðins mánaðar. Hjá Iceland Express var hlutfallið 57 prósent. Líkt og svo oft áður standast komutímarnir síður en brottfarartímarnir hjá fyrirtækjunum. Bæði bættu sig þó á þeim vettvangi og sér í lagi Iceland Express því síðustu tvo mánuði hafa vélar fyrirtækisins sjaldan lent við Leifsstöð á réttum tíma. Núna er hlutfallið 53 prósent eins og sjá má á töflu á vefsíðunni Túristi.is sem greinir frá. Flugtök Icelandair í Keflavík héldu áætlun í 85 prósent tilvika.
Tafir í mínútum talið voru lengri nú en undanfarin tímabil og munar þar mestu um að öllu morgunflugi frá Keflavíkurflugvelli var seinkað fram yfir hádegi þann 26. janúar.
Iceland Express flýgur nú aðeins til London og Kaupmannahafnar og voru ferðirnar til og frá landinu tæplega fjörtíu á síðari hluta janúar. Það var einn tíundi af fjölda ferða á vegum Icelandair á tímabilinu.