Brotist inn í hvíldaraðstöðu skotmanna
Brotist var inn í gámahúss á skotsvæði Keflavíkur í Höfnum í fyrradag. Þar hafa skotmenn hvíldaraðstöðu. Rúða var brotin og farið inn með þeim hætti. Sá sem þarna var á ferðinni stal sjö til átta þúsund krónum í skiptimynt. Þegar lögreglan á Suðurnesjum kom á staðinn kom í ljós að hinn óboðni gestur hafði skorið sig talsvert við innbrotið því blóð var á vettvangi og sjúkrakassi opinn.
Þá var, í vikunni, stolið 60 til 70 lítrum af olíu af bifreið sem stóð á bak við húsnæði Atafls á Keflavíkurflugvelli. Loks var tilkynnt um stuld á blárri og svartri kerru í Keflavík annars vegar og á hjólkoppum undan bifreið í Grindavík hins vegar. Lögreglan á Suðurnesjum biður þá sem geta veitt upplýsingar um þessi mál að hafa samband í síma 420-1800.