Brjóta niður áratuga starf lögreglunnar
Það var þungt hljóð í lögreglumönnum í hádeginu í dag þegar Jóhann R. Benediktsson tilkynnti á fundi með þeim að hann hafi óskað eftir fundi með ráðherra um starfslok sín. Eyjólfur Kristjánsson, fulltrúi lögreglustjóra sagði að verið væri að brjóta niður áratuga starf með þessari einhliða ákvörðun dómsmálaráðuneytisins að leysa upp nýsameinað embætti Lögreglunnar á Suðurnesjum.
Lögreglumenn héldu sjálfir fund eftir tilkynningu Jóhanns og voru þungir á brún að honum loknum. Þeir segjast vonsviknir yfir því að engir þingmenn eða sveitarstjórnarmenn svæðisins hafi mótmælt þessum breytingum sem eiga að taka gildi síðar í sumar. „Það var kannski í stíl við stemmninguna að það var ákveðið á fundinum að fresta árshátíðinn sem átti að vera 19. apríl,“ sagði Jón Halldór Sigurðsson, formaður Lögreglufélags Suðurnesja í samtali við Víkurfréttir.
Steinar Adolfsson, framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna sagði mikinn óróa í mönnum, fyrst eftir ákvörðun um að leysa embættið upp og síðan uppsögn lögreglustjóra sem menn bæru mikið traust til og hefði stýrt embættinu til góðra verka.